132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Fyrr í umræðunni beindi ég fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra. En svo virðist sem hún kæri sig ekki um að svara. Ég veit ekki hvers vegna. En það er eins og hæstv. ráðherra hafi forðast umræðuna. Hér hefur t.d. legið lengi fyrir beiðni um utandagskrárumræðu um raforkuverð til húshitunar. En það hefur aldrei fengist á dagskrá á þinginu. Ekki veit ég hvers vegna. Ég tel þetta vera mikið áhyggjuefni.

Ég beindi fyrirspurn til hæstv. ráðherra m.a. um hver hækkunin hefði orðið í kerfinu. Fyrir liggur nokkuð þykk skýrsla þar sem tíundað er eitt og annað í raforkukerfinu og breytingar sem hafa orðið. En það kemur ekki fram hver hækkunin var í kerfinu, hvort hækkað hafi um 100 millj. kr. eða 140 millj. kr. eins og boðað var, þ.e. að þetta yrði óveruleg hækkun. Það væri fróðlegt að fá þetta fram. Ef hæstv. ráðherra hefur ekki svör við þessu nú getur hún upplýst það við umræðuna sem verður væntanlega um þessa raforkuskýrslu. Hver hefur hækkunin orðið í kerfinu, í þeim hluta þess sem er að fara í einhvers konar samkeppnisumhverfi og þá á ég við samkeppnisumhverfi opinberra fyrirtækja enn þá? Þetta er allt saman hið einkennilegasta mál því þetta hefur, eins og ég hef nefnt áður, leitt til hækkana og ég hef verið sakaður um að fara með rangt mál, m.a. héðan úr þessum ræðustóli. En það hefur nú ekki komið fram hvað það hafi verið. Við fórum í gegnum það fyrr í umræðunni að hæstv. ráðherra virðist hafa farið offari í því að halda því fram að ég hafi farið með rangt mál og meira að segja víðs vegar um land. En ég vakti athygli hæstv. ráðherra á því að hún var spurð hér í umræðunni um hvort umrædd breyting á raforkukerfinu mundi leiða til hækkana á heimilin. Og hún svaraði því hér í umræðunni 26. nóvember 2004. Í svarinu kemur fram að breytingin muni leiða til óverulegra hækkana. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Reynsla margra annarra landa er sú að það hafi lækkað [rafmagnsverðið]. Sums staðar hefur það staðið í stað og annað slíkt en það hefur hins vegar lækkað meira til fyrirtækja. Það hefur sýnt sig í þeim löndum þar sem við höfum skoðað þessi mál.

Það getur vel verið að hjá einhverjum orkufyrirtækjum lækki verðið meira en annars staðar, t.d. eru teknar ákveðnar kvaðir af Rarik sem það fyrirtæki hafði áður í sambandi við félagslegan kostnað eða óarðbærar einingar sem ríkið tekur nú inn á fjárlög, Það nemur 230 millj. kr.

Auk þessa er meiri jöfnun í kerfinu en var áður sem getur þýtt örlitla hækkun á þessu svæði. En ég held að það sé ekki erfiðara en svo að það sé teljandi í einhverjum hundraðköllum á ári.“

Þetta sagði hæstv. ráðherra orðrétt. Ég hef því ekkert farið með rangt mál. Ég vonast til að hæstv. ráðherra sem sakaði fyrr í umræðunni einn ágætan hv. þingmann um að vera of fína til að vinna ákveðin störf — Kannski er hæstv. ráðherra of góð eða fín til að biðjast afsökunar á því að saka þann sem hér stendur um að fara með rangt mál sem ég hef alls ekki gert. Ég sé það á umræðunni að ég hef farið með rétt mál. Ef hæstv. ráðherra biður mig afsökunar mun ég auðvitað fyrirgefa henni og erfi það ekki við hana. Ég er á því að hæstv. ráðherra yrði maður að meiri ef hún gerði það. Ég vonast til þess að hún geri það, sérstaklega í ljósi þess að ráðherra var hér fyrr í dag, bara fyrir örfáum klukkustundum, herra forseti, að saka aðra um að vera of fínir. Þar sem ég hef lesið þetta upp hér ætti ráðherra að sjá að ég hef farið með rétt mál og nú ætti hún ekki að vera of fín eða of góð með sig til að biðjast afsökunar.

Þetta mál er stærra en svo að það varði eingöngu okkur hér persónulega heldur skiptir það verulega miklu máli fyrir fólkið í landinu. Á það hefur skort í umræðunni hvað frumvarpið komi venjulegu fólki við. Mun það hækka eða lækka rafmagnsreikninginn? Mér finnst það standa upp úr.

Eins hefur hæstv. ráðherra ekki svarað því hér við umræðuna hvers vegna raforkuverð til stóriðju er lægra hér en í öðrum löndum. Það er verið að flytja verksmiðjur alla leið frá Bandaríkjunum hingað til landsins og svo skilst mér að verksmiðjur séu jafnvel að flytja héðan og til Bandaríkjanna vegna þess að þar eru samkeppnisskilyrði betri en á Íslandi. Hvernig fá menn það heim og saman að þeir sem eru í samkeppnisiðnaði séu ekki að borga niður stóriðjuverðið? Við verðum að gæta að því að hér er verð á raforku til iðnfyrirtækja sambærilegt eða jafnvel aðeins hærra en í löndunum sem við miðum okkur við en raforkuverð til stóriðju er miklu lægra. Fyrirtækin koma hingað og það kom fram í umræðunni, herra forseti, að hæstv. ráðherra á erfitt með að velja úr. Hingað hópast fyrirtæki. Þau eru nú tvö og fjórir staðir á Norðurlandi voru nefndir þar sem mögulegt væri að reisa álver. Þrjár stækkanir eru í umræðunni. Þess vegna þarf að fara yfir þetta, herra forseti. Það er nauðsynlegt. Það er sambærilegt ef ekki hærra verðið sem iðnfyrirtæki í eigu Íslendinga greiða fyrir orkuna en ef útlendingar koma hingað og vilja reisa álver þá er orkuverðið miklu lægra, í sömu löndum. Þetta þurfum við að fá botn í, herra forseti.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vonast til að hæstv. ráðherra biðji mig einfaldlega afsökunar.