132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt að koma aðeins inn á þessi hlutföll sem hv. þingmaður fór yfir hér hvað varðar stuðning eða ekki stuðning við áliðnaðinn. Í fyrsta lagi er hér spurning um viðhorf gagnvart þeim áliðnaði sem nú er starfandi. Þar eru 54,6% jákvæð og 21% neikvæð en aðeins 7,7% mjög neikvæð.

Svo er það önnur spurning um viðhorf gagnvart uppbyggingu í áliðnaði byggðum á gufuaflsorku. Þá er það þannig að 58,6% eru jákvæð, 15,1% frekar neikvæð og 10,5% mjög neikvæð. Eins og ég sagði áðan þá er það almennt að um 10% eru mjög neikvæð þegar verið er að spyrja um þessa hluti.

Svo kemur spurning um viðhorf gagnvart frekari uppbyggingu í áliðnaði. Engin smáspurning. Þá eru 47,6% jákvæð eða mjög jákvæð, 36,9% neikvæð eða mjög neikvæð. Sem sagt mikill meiri hluti er jákvæður gagnvart því að halda áfram frekari uppbyggingu í áliðnaði. Svona er hægt að halda lengi áfram.

Svo koma aðrar spurningar: Telur þú að hægt sé að sætta sjónarmið umhverfisverndar og vatnsaflsvirkjunar? Þar eru það 69,7% sem telja að það sé hægt og 30,3% telja að það sé ekki hægt. Í gufuaflinu telja 88,3% að það sé hægt að ná sáttum og aðeins 11,7% telja að það sé ekki hægt.

Hvað það varðar hvernig raforkufyrirtæki og álfyrirtæki standa að umhverfismálum — ég sé að ég er að verða búin með tímann — þá er það mjög jákvætt og gaman að sjá hvaða skoðun þjóðin hefur í þeim efnum.