132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði sem ég átti eftir að koma að og spyrja hæstv. ráðherra frekar um varðandi það mál sem við erum hér að fjalla um, um hlutafélagsvæðingu Rafmagnsveitna ríkisins. Það er í fyrsta lagi hvernig farið verði með þær ábyrgðir sem ríkið hefur tekið á sig gagnvart Rarik. Rarik er með miklar skuldir. Samkvæmt rekstraruppgjöri Rariks árið 2004 eru langtímaskuldir fyrirtækisins rúmlega 3,2 milljarðar kr, lífeyrisskuldbindingarnar eru 1,5 milljarðar. Til stendur að taka 1 milljarðs kr. langtímalán sem einnig mun verða með ríkisábyrgð. Er það ekki nokkuð sérkennilegt að vera að hlutafélagavæða fyrirtæki með þessum hætti, láta ríkisábyrgðina áfram standa á ríkissjóði en segja að fyrirtækið sé orðið hlutafélagavætt og komi síðan á samkeppnismarkað. Ég vil spyrja: Hver er réttarstaða þessarar ríkisábyrgðar? Það stendur að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér. En allar nýjar skuldbindingar munu alfarið verða á ábyrgð Rariks. Hann verður nú svolítið snúinn, þessi efnahagsreikningur, þar sem hluti af skuldunum sem fyrirtækið ber á að vera með ríkisábyrgð og aðrar ekki. Ekki getur fyrirtækið farið að reka sig svona í tvennu lagi? Það hlýtur að vera að allar skuldir fyrirtækisins verði hluti af viðkomandi efnahagsreikningi. Hvernig getur það verið að ríkið verði bara ábyrgt fyrir hluta af þeim en öðrum ekki? Ég get ekki almennilega séð hvernig þetta fer saman. Á ríkisábyrgð á fjármagni að fylgja inn í fyrirtæki sem er komið í hlutafélagaform og verið að búa undir sölu?

Þá vil ég líka vekja athygli á og leiðrétta það sem sagt er hér á bls. 4. Þar er verið að telja upp hvaða veitur Rafmagnsveitur ríkisins hafa keypt. Þar eru taldar Hitaveita Hafnar í Hornafirði, Hitaveita Siglufjarðar, Hitaveita Seyðisfjarðar, Rafveita Borgarness, Rafveita Hveragerðis, Rafveita Sauðárkróks, Hitaveita Dalabyggðar og Hitaveita Blönduóss. Síðan stendur: Reynslan hefur þegar leitt í ljós að fjárfestingar þessar hafa ekki eingöngu verið arðbærar Rafmagnsveitunum, heldur einnig þeim sveitarfélögum sem hlut eiga að máli.

Nú þekki ég til hvernig þetta var með Rafveitu Sauðárkróks. Það var nú ekki aldeilis að það væri happafengur fyrir Sauðárkrók eða Skagafjörð þegar framsóknarmenn með stuðningi samfylkingarfólks í sveitarstjórn á þeim tíma komu því svo til leiðar að Rafveita Sauðárkróks var seld Rafmagnsveitum ríkisins. Það gerðist reyndar á síðustu dögum þáverandi sveitarstjórnarmeirihluta framsóknarmanna og þeirra sem skipuðu svokallaðan Skagafjarðarlista, sem voru félagar í Samfylkingunni. Rafveitan var seld á síðustu dögum þess meiri hluta. Sem betur fer var hann felldur. Var búinn að vinna nægilegt ógagn. (JÁ: Það tók ekki betra við, Jón.) En þá breyttist það þannig að raforkukostnaður margra fyrirtækja á Sauðárkróki hækkaði eftir að fyrirtækið hafði verið selt. Og raforkukostnaður sveitarfélagsins Skagafjarðar, bara sem notanda, hækkaði líka stórlega, fyrir utan það að sveitarfélagið gat beitt styrk Rafveitu Sauðárkróks til að létta undir í nýju átaki um atvinnusköpun o.s.frv. Þannig að það var nú ekki aldeilis að það væri neinn happafengur fyrir sveitarfélagið Skagafjörð að Rafmagnsveitur ríkisins skyldu vera látnar hnoðast inn í sveitarstjórn á þeim tíma og komast yfir Rafveitu Sauðárkróks. Enda hafa Skagafjarðarveitur, ég minntist á það hér í andsvari við hæstv. ráðherra, sett fram ósk um viðræður um að fá að leysa Rafveitu Sauðárkróks aftur til sín, og einnig viljað ræða hvort þær geti tekið og leyst til sín aftur hluta af eignum Rariks í Skagafirði. Skagafjarðarveitur, mjög öflugt fyrirtæki sem blessunarlega tókst að forða frá því að vera selt, eru núna á fullu að leggja hitaveitur um Skagafjörð. Það sýnir hve gríðarlega mikilvægt það er fyrir sveitarfélagið að hafa Skagafjarðarveitur, fyrirtækið sem slíkt, innan sinna vébanda.— Þeir misstu að vísu Rafveitu Sauðárkróks. — Nú vilja þeir taka upp viðræður um kaup, að leysa til sín hluta Rafmagnsveitna ríkisins í Skagafirði. Þeir hafa ekki fengið svar. Norðurorka kom með sömu ósk. Þó að hæstv. iðnaðarráðherra hafi þá persónulegu skoðun og eigi sér þann draum að búa til eitt stórt fyrirtæki sem síðan sé hægt að einkavæða og selja þá er ekki víst að íbúarnir á þessum stöðum séu sömu skoðunar. Ég veit að það er enn áhugi hjá sveitarfélaginu Skagafirði, innan Skagafjarðarveitna, að fá þessar eignir aftur til sín.

Þá finnst mér réttmætt, þegar verið er að gera þessi mál upp, að það sé rætt og kannað. Ég tek líka undir orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar hér fyrr í umræðunni þegar hann talaði um hlut sveitarfélaganna í Rarik. Rarik er jú byggt upp sem þjónustustofnun við sveitarfélögin og eigið fé Rafmagnsveitna ríkisins hefur byggst upp gegnum greiðslur notenda vítt og breitt um landið. Ég tel að sveitarfélögin eigi fyrsta rétt til að ganga að eignum sínum í Rafmagnsveitum ríkisins ef á að láta þær fara á þann veg sem hér er verið að leggja til að hlutafélagavæða og senda á markað. Ég vil eindregið hvetja sveitarfélögin til að reisa kröfur sínar. Ég vil líka hvetja hæstv. ráðherra og hv. iðnaðarnefnd að taka upp viðræður og heyra sjónarmið sveitarfélaganna hvað varðar þennan sjálfsagða rétt þeirra.

Ég ítreka að þessi ríkisstyrktu uppkaup Rafmagnsveitna ríkisins á veitum vítt og breitt um landið — þar sem ríkið hefur lagt fjármagn til Rafmagnsveitna ríkisins til að þær kaupi veitur hjá sveitarfélögum sem eru í greiðsluvandræðum vegna stefnu ríkisins gagnvart þeim — eru athyglisverð. Það hefði verið miklu nær að umræddir peningar rynnu beint til sveitarfélaganna frekar en að láta Rarik fá þá til að kaupa eignir þeirra upp.

Herra forseti. Ég vil afdráttarlaust ítreka þennan rétt sveitarfélaganna til að koma að þessu máli, fá sinn hlut. Það er alveg ljóst, og hefur komið hér fram í umræðunni, að stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins er fyrsta skrefið í að búa það til sölu. Það hefur verið vitnað í orð hæstv. iðnaðarráðherra, hann hefur látið nákvæmlega þau orð falla þó hann hafi líka sagt orð í aðra veru. En það hefur komið fram hjá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í hv. iðnaðarnefnd að það sé í rauninni bara tímaspursmál hvenær Rafmagnsveitur ríkisins verði seldar. Fyrsta skrefið sé að hlutafélagavæða þær. Það er því alveg ljóst hver vegferðin er í höndum þessarar ríkisstjórnar. Það er alveg ljóst. Ég legg því áherslu á að hæstv. ráðherra taki upp viðræður við sveitarfélögin og hv. iðnaðarnefnd geri það líka, til að tryggja eðlilegan rétt og aðkomu þeirra að þessu máli.