132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[20:03]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann. Mér fannst hann tala með hálfgerðum ótta um að Rarik yrði selt ef það yrði hlutafélagavætt. En síðan ræddi hv. þingmaður um að honum fyndist eðlilegt að hluti Rariks yrði seldur aftur til Skagfirðinga. Er hv. þingmaður sem sagt á því að selja megi Rarik í pörtum eftir að búið er að einkavæða það eða jafnvel þótt það yrði ekki einkavætt? Mér finnst þetta mikilvægt.

Hið sama gildir um fleiri hluta Rariks. Hv. þingmaður nefndi að Rarik hefur verið að kaupa ýmsar hitaveitur og rafveitur á undanförnum árum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að ekki megi selja það aftur eða að það megi ekki ganga til baka með einhverjum hætti. En hv. þingmaður talaði eins og það mætti alls ekki selja þetta fyrirtæki. Spurningin er: Má selja það í pörtum?