132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:01]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og við erum komin í 3. umr. um það mál. Það hefur komið skýrt fram hér í seinni hluta 2. umr. — sem var fram haldið með mjög dramatískum hætti, samþykkt með afbrigðum og hvað eina eftir skyndifund í iðnaðarnefnd og breytingartillögur sem þaðan komu — að allt þetta mál er bara einn lítill hlekkur í stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, þeirri stefnu að álvæða Ísland.

Það kom skýrt fram í iðnaðarnefnd, og það er mat iðnaðarráðuneytis og hæstv. iðnaðarráðherra, að orkufyrirtækin í landinu séu alls ekki nógu æst í að hefja rannsóknir á öllum þeim vatnsföllum og jarðhitasvæðum sem til eru og nú sé tækifærið til að gefa í, setja á fullt gas og hotta á eftir þeim svo að hægt sé að rannsaka þau vatnsföll og háhitasvæði sem eftir eru. Til hvers? Jú, til að hægt sé að halda stóriðjustefnunni áfram.

Hvað liggur svona rosalega á? Það lítur út fyrir að 3. umr. ljúki í dag. Sennilega verða ekki greidd atkvæði um frumvarpið en hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, verður að öllum líkindum kampakát á kynningarfundi um álver á Norðurlandi, sem haldinn verður á Akureyri í kvöld, að geta sagt frá því að nú sé hún komin með heimild til þess að veita virkjunarrannsóknarleyfi og nú geti orkufyrirtækin farið að gefa í — mikið liggur við því það á að reisa fleiri álver í landinu.

Það er reyndar dálítið merkilegt að í þessu frumvarpi til laga er ákvæði til bráðabirgða, ég les það bara upp, með leyfi forseta:

„Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 15. september 2006.“

Maður spyr sig, er þetta rétt forgangsröð? Hefði ekki verið eðlilegt að búa fyrst til reglurnar og samþykkja síðar þessi lög? Hv. þm. Þuríður Backman beindi einmitt þeirri spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra, sem var þá reyndar enn í salnum, hvort hún ætlaði að úthluta rannsóknarleyfinu á næsta hálfa árinu eða svo en fékk engin svör. Nú veit ég ekki hvert hæstv. iðnaðarráðherra er farin eða hvenær hún ætlar að gefa þessi svör. Sennilega kemur það bara í ljós þegar hún fer að veita leyfin. Hún getur gert það, þess vegna strax í næstu viku, reikna ég með.

Síðustu daga og vikur hefur mikið verið rætt um áláform ríkisstjórnarinnar. Það er dálítið merkilegt að hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, viðurkennir í viðtali við Morgunblaðið þann 24. janúar, nánar tiltekið á bls. 10, að ekki verði hægt að byggja fleiri en eitt álver fyrir árið 2012 vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni. Á hinn bóginn virðist iðnaðarráðherra telja mögulegt að auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá nýjum álverum eftir 2012. Hvernig ætli standi á því? Jú, það er vegna þess að hún gerir ráð fyrir því að Ísland fái frekari undanþáguheimildir frá ákvæðum Kyoto 2 um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Það verði sem sagt enginn samdráttur í útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, nei, þvert á móti aukning. Það er varla á þá vitleysu bætandi en nokkrum dögum síðar segir sami iðnaðarráðherra frá því að það sé kannski alveg möguleiki á því að byggja tvö álver á næstu árum, stækka álverið í Straumsvík og byggja annað álver á Norðurlandi. Ég fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra er komin í salinn og ætlar þá kannski að svara spurningum sem hv. þm. Þuríður Backman beindi til hennar fyrr í dag.

Maður getur auðvitað velt því fyrir sér hvort hæstv. iðnaðarráðherra sé tvísaga í málinu. Reyndar er umfjöllun fjölmiðla sama dag á Stöð 2 eða NFS, eins og það heitir núna, afar merkileg. Hæstv. ráðherra segir í einu orði að það sé ekki pólitísk ákvörðun, hún hafi ekkert haft með þá ákvörðun að gera að Landsvirkjun fari í viðræður við Alcan í Straumsvík um að stækka álverið, það sé ekki á hennar valdi þrátt fyrir að allir viti auðvitað að hún á marga fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar. Í sama fréttatíma segir reyndar forstjóri Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, að auðvitað sé þetta pólitísk ákvörðun og auðvitað viti iðnaðarráðherra hvert málið stefni. Það er nú dálítið merkilegt þegar þau skötuhjú … (Iðnrh.: Hann sagði það ekki.) Ég er með útprent, kannski fæ ég leyfi til að ná í það í sætið mitt.

(Forseti (JóhS): Það verður náð í skjalið fyrir hv. þingmann.)

Ég vil ekki fara með fleipur í ræðustól Alþingis. Þetta er frétt á NFS 24. janúar, sama dag og viðtalið birtist í Morgunblaðinu. Yfirskrift fréttarinnar er: „Landsvirkjun valdi Alcan fram yfir Norðurál.“ Og nú skal ég vitna beint í þessa frétt, með leyfi forseta:

„Stjórn Landsvirkjunar tók stækkun álversins í Straumsvík fram yfir nýtt álver í Helguvík þar sem Alcan bauðst til að greiða hærra verð fyrir raforkuna. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin án samráðs við sig. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þetta hins vegar hafa verið pólitíska ákvörðun.

Með ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar í gær um að ganga til viðræðna við Alcan er mörkuð sú stefna að næstu stóriðjuframkvæmdir skuli vera á suðvesturhorni landsins við stækkun í Straumsvík og smíði virkjana á Hellisheiði og Suðurlandsundirlendi. Þegar Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra er spurð um þessa stefnumörkun vísar hún á stjórn Landsvirkjunar.“

Það er fréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson sem spyr: „En stjórnarmeirihlutinn í Landsvirkjun hefur væntanlega ekki tekið þessa ákvörðun án samráðs við iðnaðarráðherra.“ Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra svarar: „Jú, það er gert án samráðs við iðnaðarráðherra.“

„Forstjóri Landsvirkjunar sagði síðan þetta fyrr í dag“ — og hér er það Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sem talar: „Ríkið fylgist auðvitað mjög gaumgæfilega með öllum þessum undirbúningi, bæði viðræðum við Alcan á Íslandi og eins öðrum viðræðum sem við höfum staðið í þannig að ríkinu er auðvitað mjög vel ljóst í hvað stefnir.“

Kristján Már spyr: „Þetta er auðvitað pólitísk ákvörðun úr því að stjórn Landsvirkjunar samþykkir þetta?“

Friðrik Sophusson svarar: „Já, já, þetta er pólitísk ákvörðun, það er alveg rétt því að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila og það eru fulltrúar þeirra sem sitja í stjórn Landsvirkjunar.“

Síðan spyr Kristján Már: „Hefur þetta heppileg áhrif á byggðaþróun í landinu að fara í stóriðjuuppbyggingu á suðvesturhorni landsins?“

Þá er það Valgerður Sverrisdóttir sem svarar: „Ja, það er nú þannig með byggðamálin að það er ýmislegt jákvætt að gerast í þeim og náttúrlega sérstaklega á Austurlandi vegna stóriðjuframkvæmda. En við getum í raun, stjórnvöld hafa ekki vald til að stoppa þetta fyrirtæki af vegna þess að þau vilji að eitthvert annað fyrirtæki byggi frekar einhvers staðar.“

Og Kristján Már enn með áhrifum í stjórn Landsvirkjunar og Valgerður Sverrisdóttir segir: „Ja, það er nú eins og ég segi. Við stjórnum ekki því fyrirtæki, það eru Reykjavíkurborg og Akureyri sem hafa jafnmarga fulltrúa en fulltrúar mínir í þessari stjórn, eins og ég fór yfir áðan, eru einn framsóknarmaður, einn sjálfstæðismaður og einn samfylkingarmaður.“

Það er best að ég klári þetta frétt alveg. Kristján Már spyr: „Nú hefur fulltrúi Akureyrarbæjar lýst sig andvígan þessum áformum“ og Valgerður Sverrisdóttir svarar: „Já, hann hefur stöðu til þess að gera það í rauninni. Hann er þarna sem fulltrúi Akureyrar en ef spurt er um mína afstöðu þá er ég náttúrlega ráðherra landsins alls og ég sé ekki að ég hefði stöðu til þess að stoppa af það sem stjórn telur rétt að gera með hagsmuni fyrirtækisins í huga.“ Samkvæmt upplýsingum fréttastofu stóð stjórn Landsvirkjunar frammi fyrir því vali hvort semja ætti um sölu raforkunnar til Straumsvíkur eða til nýs álvers sem eigendur Norðuráls áforma að reisa í Helguvík.“

Friðrik Sophusson botnar þessa frétt: „Ástæðan fyrir því að við völdum að eiga þessar einkaviðræður við Alcan á Íslandi er sú að við höfum átt í könnunarviðræðum við þessi fyrirtæki öll og niðurstaðan er sú að þeir hafa sýnt skilning á því að við þurfum hærra verð og við höfum í viðræðum við þá fundið það út að það eru mjög miklar líkur á því að til jákvæðrar niðurstöðu geti komið.“ — Þannig er það nú.

Hæstv. iðnaðarráðherra og Friðrik Sophusson, forstjóra Landsvirkjunar, greinir greinilega á um pólitísk völd í landinu og hver það er sem hefur eitthvað að segja í þessum málum.

Ég minntist aðeins á þessa álversfundi sem fyrirhugaðir eru, einn í kvöld á Akureyri, annar á Húsavík annað kvöld og á fimmtudaginn er síðan fundur í Skagafirði. Kynningarfundir um álver á Norðurlandi. Ég mætti á einn kynningarfund fyrir rúmu ári minnir mig á Akureyri þar sem verið var að kynna þessa kosti. Tilgangurinn er auðvitað að láta Norðlendinga ekki velta þeirri spurningu fyrir sér hvort þeir vilji yfir höfuð álver heldur hvar það eigi að vera. Það komu einmitt tillögur úr sal vegna þess að ekkert útlit var fyrir að menn mundu sættast á það á fundinum hvar álverið ætti að vera. Einhverjir Eyfirðingar vildu hafa það í Eyjafirði o.s.frv. Einn kom með tillögu um hvort ekki væri bara hægt að hafa þrjú lítil álver á Norðurlandi, eitt í hverjum firði. Þar kom fram óskadraumur ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnaðarráðherra, álver í hvern fjörð.

Frumvarpið er aðeins einn liðurinn í að flýta fyrir þessum framkvæmdum svo hægt sé að fara að útdeila rannsóknarleyfum. Það er dálítið áhugavert að í seinni hluta 2. umr. minnir mig kom fram ein frábær setning frá hæstv. iðnaðarráðherra sem segir gjarnan að Vinstri hreyfingin – grænt framboð eða Vinstri græn — hún segir reyndar alltaf Vinstri grænir — séu á móti virkjunum. Við höfum náttúrlega margoft rökstutt það að við séum alls ekki á móti virkjunum. Hins vegar erum við á móti virkjunum þegar þær hafa í för með sér óafturkræf náttúruspjöll, eins og Kárahnjúkavirkjun. Einnig erum við á móti virkjunum ef tilgangurinn er að selja orkuna á hlægilega lágu verði til álbræðslna. En við erum mjög hlynnt rennslisvirkjunum. Ég get nefnt eitt dæmi um ágætisvirkjun sem var verið að taka í notkun í heimasveit minni, í Eyjafirði, þ.e. Djúpadalsvirkjun sem framleiðir ekki nein ósköp, ekki nóg fyrir heilt álver, en hún er dæmi um ágætisvirkjun sem væri sennilega eftir 50 ár hægt að pakka saman og fjarlægja öll vegsummerki um hana ef staðan verður þannig að við værum farin að vinna orku með einhverjum öðrum hætti. Virkjanir út af fyrir sig eru vissulega ljómandi góðar.

En það þarf mikla orku til að hægt sé að knýja enn eina álbræðsluna, álbræðslu á Norðurlandi. Ég er hér með glærur sem Bjarni Bjarnason, framkvæmdastjóri orkusviðs, sýndi á ársfundi Íslenskra orkurannsókna á Akureyri 9. mars 2004. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór reyndar yfir það mjög vel í ræðu sinni áðan og enn betur í ræðunni við 2. umr. um alla virkjunarkostina sem eru uppi á borðinu, allar þær jökulár og háhitasvæði, bara að nefna það sem eru á teikniborðinu. Í fyrirlestri Bjarna Bjarnasonar kemur fram að staðan í dag á Norðausturlandi er sú að verið er að framleiða afl upp á 92 megavött. Hins vegar þyrfti álver sem fyrirhugað er að reisa í Eyjafirði eða á Húsavík hvorki meira né minna en 610 megavött. Hér er um sjöföldun að ræða. Virkjunarkostirnir eru Krafla, Bjarnarflag, Gjástykki, Þeistareykir, Hrafnabjörg, Villinganes og Skatastaðir. En ekki er búið að rannsaka þetta nóg þannig að nú þurfa menn að drífa sig af stað og rannsaka svo hægt verði að virkja allt þetta, svo hægt verði að byggja enn eitt álverið á Norðurlandi hvort sem það verður eftir 2012 eða bara sem fyrst.

Af því að við erum komin í þessa álumræðu enn eina ferðina langar mig til að létta aðeins stemmninguna og lesa stutta en skemmtilega grein eftir Guðmund Steingrímsson sem hann birti í Bakþönkum Fréttablaðsins í síðustu viku og heitir einfaldlega: Um ál. Ég er sérstaklega ánægður með að hæstv. iðnaðarráðherra sitji nú í salnum og hlusti á þessa grein, það er ekki víst að hún hafi lesið hana í Fréttablaðinu. (Iðnrh.: Jú, ég hef lesið hana, svo sannarlega.) Já, frábært. Þó skal ég rifja hana upp fyrir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta. Guðmundur Steingrímsson skrifar:

„Ég er undrandi — þótt ekki missi ég svefn — á þeirri tilhneigingu vel lesinna Íslendinga á besta aldri að heimta í sífellu álver fyrir byggðarlag sitt. Því var spáð þegar Austfirðingar fengu stóriðju, og fögnuðu með Alcoafánum í kjölfarið, að þá mundu fleiri vilja fá álver líka og það virðist hafa gengið eftir. Fjórar álversframkvæmdir eru á teikniborðinu, hvorki meira né minna. Og færri fá en vilja, enn um sinn.

Fyrir utan það að vera á móti óhóflegum álversframkvæmdum af umhverfisástæðum sé ég ekki alveg hvernig Íslendingum er sérstakur greiði gerður með meira áli. Það hljómar þversagnarkennt að ætla sér að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi með því að byggja bara, með áherslu á bara, álver. Auk þess er álver klunnaleg leið, mörkuð gamaldags ríkisafskiptum til þess að auka hagvöxt. Og líklega skammvinn í þokkabót.

Ég efast um að álverið á Reyðarfirði og tengdur rekstur eigi eftir að vera spennandi atvinnukostur fyrir unga, upprennandi Austfirðinga. Pólverjum og Kínverjum er flogið inn í tugatali til Egilsstaða til þess að byggja virkjunina og sjálfsagt verður haldið áfram að fljúga þeim inn til þess að vinna í álverinu. Mjög gott fyrir Pólverja og Kínverja svo sem en ég held að það sjónarmið hafi ekki verið rökin fyrir framkvæmdunum upphaflega.

Út af þessu álveseni er sjávarútvegur að fara á höfuðið út af háu gengi. Smáfyrirtæki leggja upp laupana. Hátæknifyrirtæki með menntuðu innlendu vinnuafli flytja til útlanda. Og þetta gerist þrátt fyrir að tölur og rök sýni að stóriðja er miklu óheppilegri kostur en til dæmis hátækniiðnaður til þess að auka þjóðarframleiðslu og hagvöxt til lengri tíma. Enda er lítið vit í öðru fyrir hámenntaða þjóð en að leggja áherslu á hátækni.

Álið er ofmetið. Akureyri fékk á sínum tíma háskóla. Ekki álver. Ekki einu sinni álskóla. Ég get ekki betur séð en að háskólinn hafi gert gríðarlega mikilvæga hluti fyrir byggðarlagið, hvað sem hver segir. Fólk fer til Akureyrar út af honum. Fólk dvelur þar. Jafnvel býr þar. Ég man eftir því hvernig sumir hlógu þegar bent var á það að háskólasetur einhvers konar á Egilsstöðum mundi gera miklu meira en álver fyrir svæðið. Kannski voru austanmenn of uppteknir við að hugsa hvernig þeir ætluðu að nota álfárið til þess að selja húsin sín og flytja burt til þess að nenna að íhuga svoleiðis skýjakljúfa að sunnan.

Trúin á álið er dæmi um það hversu mikilvægt það er að þjóðir móti sér stefnu, stjórnmálaflokkar hafi stefnu og að fólkið kjósi um stefnu. Ekki minnist ég þess nefnilega að nokkurn tíma hafi íslenskur flokkur lýst því yfir að breyta ætti Íslandi í reykspúandi stóriðjukumbalda í stað þess að leggja áherslu á eitthvað annað. Þetta hefur aldrei verið rætt. Og þess vegna erum við núna á fleygiferð til álskotans.“

Þetta var bein tilvitnun í Fréttablaðið og Guðmund Steingrímsson. (Iðnrh.: Þetta er ömurlega vitlaust.) Ömurlega vitlaust, segir hæstv. ráðherra, og erum við ekki alveg sammála um það. Mér finnst þetta mjög skemmtileg grein og lýsa ástandinu vel. Staðreyndin er sú að fólk er að vakna til vitundar. Hér voru haldnir frábærir tónleikar fyrir fullu húsi sem ungt fólk skipulagði, Hætta-hópurinn. Hægt hefði verið að selja tvisvar sinnum inn á þá tónleika. Umræðan í kjölfarið er kannski líkleg til að bjarga Þjórsárverum eða það vona ég að minnsta kosti. En það þarf greinilega meira til til að stoppa þetta álbrjálæði ríkisstjórnarinnar því að hæstv. iðnaðarráðherra lætur ekki stoppa sig. Hún er á fleygiferð norður í land til að láta Eyfirðinga keppa við Húsvíkinga og Skagfirðinga — ekki um hvort það komi álver heldur hvert það eigi að fara. Það er sorglegt hlutskipti fyrir hæstv. ráðherra.