132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[16:54]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að endurtaka spurningarnar að því leyti að ég hef á tilfinningunni að í raun hafi ekki verið leitað eftir því hvort hægt væri að fylgja harðar eftir þeim reglum sem þegar eru í gildi áður en farið verður út í að leggja fram frumvarp um nýjar og strangari reglur.

Í annan stað hlýt ég að benda á að í löndunum í kringum okkur eru farnar mismunandi leiðir í þessu skyni. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur farið þá leið að velja ströngustu fyrirmyndirnar og ég hlýt því að spyrja: Hefur heilbrigðisráðuneytið t.d. kannað hvernig reynsla Svía er af reglum þar sem gert er ráð fyrir því að heimilað sé að hafa tiltekin afmörkuð reykherbergi á veitingastöðum þar sem ekki eru framreiddar veitingar?