132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[16:55]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, vissulega hef ég velt þessari spurningu fyrir mér og ég hef rætt við veitinga- og gistihúsaeigendur, þ.e. forustu þeirra, um þetta mál. Það eru mjög mikil vandkvæði á því að framfylgja núverandi löggjöf, m.a. þeim lið að stúka af reykingasvæði á veitingahúsum. Það var talið mismuna minni veitingahúsum og draga þau stærri fram fyrir, og þótti ekki aðgengilegt.

Ég man að menn hafa þreifað sig áfram í þessum efnum. Einu sinni var bannað að reykja öðrum megin við ganginn í Fokkernum á leiðinni til Egilsstaða. Síðan var það bannað. Ekki nokkur maður minnist á það að kveikja sér í sígarettu á þessari leið núna. (Forseti hringir.) Það er langt síðan því var hætt.