132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:01]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enginn efast um skaðsemi reykinga og það þarf að hlífa þeim sem ekki reykja við reyk og óbeinum reykingum. Í þessu fortakslausa reykingabanni felst þó að mínu viti varhugavert stjórnlyndi og áköf forræðishyggja sem getur ekki verið rétta leiðin til að ná fram annars ágætu markmiði. Það hlýtur að vera skynsamlegra að skoða t.d. sænsku leiðina og þær leiðir þar sem tryggt er að þeir sem starfa á veitingastöðunum og þeir sem ekki vilja vera innan um reyk séu á reyklausu svæði.

Í þessu ljósi spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra þeirrar spurningar hvort hann telji ekki að svo fortakslaust bann við reykingum á öllum stöðum brjóti gegn friðhelgi einkalífsins og eignarréttar- og atvinnufrelsinu í landinu. Svo hart er fram gengið og svo langt, og verða menn ekki að skoða og reyna að finna mildari leið að sama markmiði?