132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:09]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla á þessum góða degi, deginum þegar Íslendingar sigruðu Rússa á Evrópumótinu í handknattleik, að taka til máls um þetta frumvarp um breytingu á tóbaksvarnalögum. Þótt maður hafi verið ánægður með sigurinn í dag sljákkar í manni þegar maður les það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.

Ég vil taka fram og viðurkenna strax í upphafi að auðvitað sé ég það í frumvarpinu í sjálfu sér að ásetningurinn með framlagningu þess er góður. Ég tel þó að niðurstaðan sé slæm og að á henni séu miklir annmarkar. Ég hef af þeim ástæðum miklar efasemdir um það.

Nú vil ég taka fram að rétt eins og „strákarnir okkar“ sem unnu þennan sigur í dag reyki ég ekki, hef aldrei gert og ætla mér ekki að hefja reykingar. Afstöðu mína til frumvarpsins má ekki túlka þannig að ég mæli reykingum bót. Á þeim hef ég hina mestu skömm. Það er bara þannig. En svo að ég komi að því hvers vegna mér finnst frumvarpið háð annmörkum eru einkum þrjár ástæður fyrir því að ég styð það ekki. Um þær ætla ég að fjalla í ræðu minni, og bið hv. þingmann að vera ekki með grettur framan í mig meðan ég held ræðu mína þótt hann sé ósammála mér.

Ég tel í fyrsta lagi að frumvarpið og reglur þess eigi ekki að ná fram að ganga vegna þess að veitingamenn eiga sjálfir að fá að ákveða hvort slíkt reykingabann verði tekið. Í öðru lagi tel ég að vilji menn á annað borð að gripið verði til frekari aðgerða en núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir gangi frumvarpið of langt. Í þriðja lagi tel ég að undirbúningur löggjafarinnar, þar með taldar forsendur hennar sem eru sagðar vísindalegar og ég dreg mjög í efa, sé ekki boðlegur. Ég tel að frumvarpið fullnægi engan veginn þeim kröfum sem eðlilegt er að gera um rökstuðning og faglega umfjöllun, sérstaklega þegar um er að ræða reglur sem ætlað er að skerða atvinnufrelsi og ganga að eignar- og umráðarétti manna.

Eins og ég sagði áðan er fyrsta atriðið sem ég set út á í þessu frumvarpi það að ég tel að eigendur veitinga- og skemmtistaða eigi sjálfir að fá að ákveða hvort þar eigi að heimila reykingar eða ekki. Við sjáum á heimasíðu Lýðheilsustöðvar að í dag eru í kringum 100 veitinga- og skemmtistaðir reyklausir. Mér er fullkunnugt um að aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar samþykkti að ganga til viðræðna við stjórnvöld um að allir veitinga- og skemmtistaðir yrðu reyklausir frá og með 1. júní 2007 en ég tel hins vegar að atbeina löggjafans þurfi ekki til að kveða upp úr um slíkt. Ég tel að aðilar að Samtökum ferðaþjónustunnar geti ákveðið það í sínum ranni og það sé miklu eðlilegra en að þetta bann verði tekið upp. Menn verða að finna hjá sjálfum sér ef þeir virkilega hafa áhuga á að grípa til slíkra aðgerða. Ég tel að öðru leyti að ég þurfi ekki að rökstyðja þessa skoðun mína frekar, ég hygg að rökin fyrir þessu atriði liggi í augum uppi og hafi margoft komið fram.

Eins og ég sagði tel ég í annan stað að frumvarpið gangi of langt og ég vísa til 1. gr. í því sambandi. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Með þjónusturými er í lögum þessum átt við öll húsakynni undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, svo og samkomutjöld og sýningartjöld, sem almenningur hefur aðgang að vegna viðskipta og veittrar þjónustu og þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi, þar með talin áhorfendasvæði, biðstofur, gestamóttaka, forstofur, gangar, snyrtiherbergi o.fl.“ — Gott og vel með áhorfendasvæðin og slíkt, ég mælist ekki til að menn stundi reykingar á íþróttakappleikjum eða á slíkum stöðum en ég hlýt að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort það sé nauðsynlegt að ganga eins langt og þarna kemur fram. Ég get ekki betur séð af gögnum frumvarpsins og fylgiskjölum en að með lögleiðingu þessa frumvarps göngum við Íslendingar lengra í þessa átt en allar aðrar þjóðir hafa gert. Ég sé ekki ástæðuna fyrir nauðsyn þess. Þegar menn tala um að frumvarpið gangi út á að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum er það rangnefni. Það sem hér er lagt til er að reykingar verði bannaðar, ekki bara inni á stöðunum heldur jafnframt í öllu næsta nágrenni við þá. Það er nánast þannig að bannað sé að reykja ef veitingastaðurinn er í sjónlínu.

Ef hugmyndin er sú að reyna að fá fólk til að hætta að reykja, sem að mínu mati er göfugt markmið, hygg ég að þær reglur sem hér eru lagðar til nái ekki fram því markmiði. Ég trúi ekki að hæstv. heilbrigðisráðherra telji að þetta leiði til þess að menn hætti að reykja. Ég er þvert á móti hræddur um að verði frumvarpið að lögum ýti þetta reykingamönnum miklu frekar inn á heimilin þar sem þeir geta stundað iðju sína. Er það heppilegra fyrirkomulag, hæstv. heilbrigðisráðherra, að reykingamenn reyki ofan í börnin sín frekar en að gera það á opinberum stöðum? Það held ég ekki. Ég hef áhyggjur af því að þessi regla feli í sér þróun sem við viljum ekki sjá.

Frú forseti. Í þriðja lagi tel ég að undirbúningur og forsendur frumvarpsins, sem sagðar eru vísindalegar en eru það ekki, fullnægi ekki þeim kröfum sem gera verður um rökstuðning og faglega umfjöllun þegar lagt er til að reglur eins og þessar séu teknar upp í lög. Þetta eru tálmanir og takmarkanir á eignar- og umráðarétti eigenda veitinga- og skemmtistaða yfir eignum sínum, takmarkanir sem eru ekki einungis vafasamar með hliðsjón af eignarrétti og atvinnufrelsi, heldur einnig líklegar til að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega afkomu, a.m.k. sumra. Ég verð að segja það svona til að byrja með, varðandi þennan þátt sem ég ætla að fjalla hér um, að það er svolítið sérstakt þegar maður les upphaf athugasemda við frumvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jón Kristjánsson, óskaði á árinu 2004 eftir tillögum frá tóbaksvarnaráði og Lýðheilsustöð um endurskoðun þeirra ákvæða tóbaksvarnalaga sem heimila reykingar á afmörkuðum svæðum veitinga- og skemmtistaða.“ — Af hverju var bara leitað til tóbaksvarnaráðs og Lýðheilsustöðvar? Við hverju bjuggust menn þegar þeir leituðu til slíkra aðila um þessi mál, aðila sem hafa verið í fullri vinnu við það að ná þessum markmiðum? Auðvitað gat sú vinna og niðurstaða aldrei orðið hlutlaus. Það er álíka skynsamlegt og að fela vinstri grænum, með fullri virðingu fyrir þeim, að semja hér tillögur um stefnu ríkisstjórnarinnar í stóriðju- og virkjunarmálum. Það mundi leiða til þess að ekkert yrði virkjað, engri stóriðju yrði komið á. Menn í heilbrigðisráðuneytinu fá hér tóbaksvarnaráð og Lýðheilsustöð til að semja þessar tillögur. Það var alveg gefið fyrir fram hverjar niðurstöðurnar yrðu.

Þetta frumvarp er, eins og örugglega á eftir að fjalla um á eftir, hið sama og lagt var fram á síðasta þingi af hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur, Jónínu Bjartmarz og Þuríði Backman með einni efnisbreytingu og hún varðar gildistökuákvæði laganna. Þær breytingar sem hins vegar hafa verið gerðar á frumvarpinu varða fyrst og fremst þá greinargerð sem liggur henni til grundvallar. Ég fór yfir greinargerð þess frumvarps þegar það var lagt fram. Það er heilmikið mál vegna þess að í henni eru 58 tilvísanir í hin ýmsu rit. Það tekur náttúrlega talsverðan tíma að kanna tilvísanir í greinargerðum eins og þessari, einkum þegar þær eru þetta margar. Sá sem ræðst í það verkefni fær fljótt á tilfinninguna að hann hlaupi apríl vegna þess að aftur og aftur er snúið út úr heimildum, orðalag er ónákvæmt, niðurstöður rannsókna oftúlkaðar og mikilvægum fyrirvörum sleppt.

Þetta var gert í þingmannafrumvarpinu. Greinargerðin stafar frá Lýðheilsustöð. Ég get svo sem tekið dæmi um það hvernig rangt er farið með í þeirri greinargerð. Í henni er t.d. fullyrt að samkvæmt norskum rannsóknum séu efni úr tóbaksreyk jafnan langt yfir hættumörkum á reyklausum svæðum. Þetta er rangt því að í norsku heimildinni sem vísað er til er minnst á tvær rannsóknir; önnur þeirra sem var gerð var í Tromsö 1999 sýndi að reykefni á reyklausum svæðum fóru ekki yfir viðmiðunarmörk nema í 37% tilvika. Í greinargerðinni er fullyrt að í norskum rannsóknum hafi reykefnin á reyklausum svæðum mælst allt að 56-falt yfir viðmiðunarmörkum en hið rétta er — ég bið menn að taka eftir — að mælingin sem sýndi 56-falt var gerð á reyksvæði en ekki á reyklausu svæði. Þetta er dæmi um hvernig farið var með sannleikann í þessari greinargerð.

Í henni segir einnig að sýnt hafi verið fram á að þeim sem verður fyrir tóbaksreyk heima eða í vinnunni sé 40–60% hættara við að fá astma en öðrum. Rannsóknin sem vitnað er til í þessu sambandi í hinu fyrra frumvarpi var um áhrif óbeinna reykinga á astmasjúklinga. Rannsóknin náði eingöngu til þeirra sem voru haldnir sjúkdómnum. Í samantekt er sagt frá helstu niðurstöðum en þar er hvergi minnst á að óbeinar reykingar geti valdið astma, enda var ekkert verið að rannsaka hvort svo væri heldur aðeins hver áhrif óbeinna reykinga væru á þá sem þegar væru haldnir astma.

Kannski var ætlunin að vísa í einhverja allt aðra rannsókn, hver veit, en þá er þess að geta að hvorki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, né bresku læknasamtökin nefna það einu orði að óbeinar reykingar geti valdið astma hjá fullorðnum. Samt er þessu haldið fram í greinargerð.

Þá kem ég að hinu nýja frumvarpi. Sú breyting sem er athyglisverð og var gerð á því þegar það var lagt fram er að greinargerð Lýðheilsustöðvar var tekin út úr meginmáli greinargerðarinnar með frumvarpinu og gerð að fylgiskjali með því. Greinargerð Lýðheilsustöðvar er með öðrum orðum ekki lengur hluti af greinargerðinni.

Þegar ég tók saman athugasemdir við fyrri greinargerðina komst ég að því að þar voru hvorki meira né minna en 16 rangfærslur varðandi niðurstöður úr þessum rannsóknum. Ég get ekki betur séð en að ekki hafi staðið steinn yfir steini í umfjöllun Lýðheilsustöðvar. Ég hlýt að túlka það svo að greinargerð Lýðheilsustöðvar hafi verið kippt út úr greinargerðinni þannig að hæstv. ráðherra hafi gripið til þess úrræðis vegna þess að hann hafi ekki lengur treyst sér til að skrifa upp á umfjöllun Lýðheilsustöðvar um heilsufarsleg áhrif frumvarpsins. Þetta eru náttúrlega merkileg viðbrögð vegna þess að heilsufarsleg nauðsyn er ekki einungis aðalréttlæting aðgerðanna, heldur eina réttlætingin. Þær róttæku aðgerðir sem frumvarpið felur í sér að gripið skuli til hljóta að þurfa að byggjast á því að fyrir liggi vönduð hlutlæg úttekt á heilsufarslegri nauðsyn þeirra, úttekt sem sé hafin yfir allan vafa um óvönduð vinnubrögð. Og þau mega alls ekki vera áróðurskennd.

Ef við skoðum síðan greinargerð Lýðheilsustöðvar eins og hún er nú í frumvarpinu kemur í ljós að henni hefur bara verið töluvert breytt frá því að frumvarpið var lagt fram í upphaflegri mynd. Það er búið að kippa út ýmsum fullyrðingum, bæta við heimildum og aðrar hafa verið fjarlægðar. Þessa er hins vegar alls ekki getið í greinargerðinni sjálfri frá Lýðheilsustöð og ég hlýt að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig á þessu standi.

Ég get tekið dæmi um þetta. Ég nefndi áðan norsku rannsóknina. Í fyrri greinargerðinni var fullyrt að mælingar á reyklausum svæðum á veitingastöðum í Noregi hefðu sýnt að reykefnin væru 56-falt yfir viðmiðunarmörkum og þess vegna væri óverjandi að leyfa reykingasvæði. Hið rétta er að mælingin sem um ræðir var gerð á reyksvæði en ekki reyklausu svæði. Núna hefur þessari fullyrðingu einfaldlega verið hent út úr greinargerðinni en þess ekki getið í henni, heldur hún bara lögð skammlaust fram án þess að menn blikni eða bláni.

Það sama má segja um þá staðhæfingu að óbeinn tóbaksreykur auki líkur á að fá astma um 40–60% og ég vísaði til áðan. Hún var studd með tilvísun í rannsókn sem varðaði einungis áhrif reyks á astmasjúklinga en fjallaði ekkert um það hvort reykurinn gæti valdið astma. Nú hefur Lýðheilsustöð skipt um heimild án þess að geta þess sérstaklega hvers vegna í ósköpunum það var gert. Í þetta sinn er vísað í ritgerð sem styður fullyrðinguna. Hins vegar er ekki tekið fram að niðurstaðan um 40–60% auknar líkur er aðeins ágiskun sem byggð er á mjög ólíkum niðurstöðum þriggja rannsókna. Sjálfir höfundar þessarar ritgerðar — og takið nú eftir — sjá líka ástæðu til að gera fyrirvara við niðurstöðuna sem Lýðheilsustöð minnist heldur ekkert á. Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að Lýðheilsustöð og tóbaksvarnaráð voru búin að ákveða fyrir fram hvaða tillögur þau ætluðu að leggja fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra og þeim var síðan alveg nákvæmlega sama hvernig þau rökstyddu þá niðurstöðu sína. Þau hafa farið rangt með niðurstöður einstakra rannsókna og dregið rangar ályktanir. Þetta eru svo margar rangfærslur sem fram koma í greinargerðinni að ég get ekki farið yfir þær allar í minni stuttu ræðu. Ég mun hins vegar gera það við 2. umr. þótt ég þurfi að standa hér tímunum saman til þess. Það sem er kannski það versta er að fyrir liggur rannsókn, viðamesta rannsóknin á tengslum óbeinna reykinga og lungnakrabbameins sem gerð hefur verið — hún var gerð árið 1998 af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni — og ekkert er vikið að henni í greinargerðinni. Ekki einu orði. Af hverju skyldi það nú vera? Vegna þess að rannsóknin á tengslum óbeinna reykinga og lungnakrabbameins hefur ekki leitt í ljós vísbendingar um að um tengsl sé að ræða. Um þetta birtist frétt í Morgunblaðinu 12. mars 1998 og einnig í The Guardian. Rannsóknin var gerð á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og segir að þetta sé ein umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið á tengslum óbeinna reykinga og lungnakrabbameins og að sérfræðingar og baráttuhópar hafi beðið eftir henni með óþreyju.

Af hverju er ekkert á þetta minnst? Við vitum náttúrlega að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin fór ekki út í þessa rannsókn til að komast að þessari niðurstöðu. Hún ætlaði sér að komast að allt annarri niðurstöðu. Kannski kom á óvart að rannsóknin leiddi í ljós að börn reykingamanna eru ekki í meiri hættu en börn þeirra sem ekki reykja. Það er önnur merkileg niðurstaða í þessari rannsókn. Niðurstöðunum er haldið leyndum vegna þess að þær eru óþægilegar fyrir málstaðinn. En hvers vegna í ósköpunum er ekkert vikið að þessu í greinargerð með frumvarpinu? Þetta er viðamesta rannsóknin sem gerð hefur verið á þessu efni.

Ég er ekki að setja mig í eitthvert dómarasæti í þessu máli. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði, ég vísa bara til þeirra vinnubragða sem ástunduð hafa verið við vinnslu þessa frumvarps og ég tel að séu ekki sæmandi hinu háa Alþingi.

Ég tel, frú forseti, að þegar menn leggja í svona leiðangur verði menn að gæta sín á því að misnota ekki vísindin til að þjóna einhverjum pólitískum rétttrúnaði eða áhugamálum sínum. Við þekkjum það, Íslendingar, að ýmis samtök hafa reynt að gera það til að ná fram markmiðum sínum, eins og t.d. þeir sem vilja friða hvalinn. Ég geri þá kröfu þegar menn leggja fram frumvörp eins og þessi sem kveða á um skerðingu á athafnafrelsi og eignarrétti að svona vinnubrögð séu ekki viðhöfð, sérstaklega ekki af opinberum aðila.