132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sú ræða sem hv. þingmaður flutti hér var með ólíkindum. Vísindin eru að hjálpa okkur til að sjá og fá rétta mynd af náttúrunni. Vísindin eiga að gefa okkur rétta mynd af náttúrunni. Það er afskaplega mikilvægt að menn geti treyst þeim rannsóknum og því sem gert er þannig að við vitum hvernig náttúran lítur út og hvernig hlutirnir líta út.

Hv. þingmaður sagði dæmi af einni af fjöldamörgum rannsóknum varðandi tengsl astma og reykinga sem hafa verið gerðar bara á astmasjúklingum. Ég hjó eftir því. Ef þetta er rétt sem hv. þingmaður segir stöndum við hér frammi fyrir óskaplega erfiðu vandamáli. Getum við yfirleitt treyst því sem kemur frá ráðuneytum eða vísindamönnum? Ég skora á hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar að kalla til vísindamenn þessa lands þannig að við getum treyst því að það sem er lagt fram sé rétt. Annars erum við á afskaplega hálum ís. Nú hef ég enga ástæðu til að rengja hv. þingmann í þessu. En annaðhvort er það sem hann segir rétt eða það sem ráðuneytið segir. Ég vil bara fá úr því skorið áður en ég get tekið afstöðu til þessa máls, absalútt. Þetta er tilvísun í vísindi og vísindamenn og ég vil að þær upplýsingar séu réttar.