132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:31]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Við verðum að treysta því sem frá ráðuneytinu kemur og frá þeim vísindamönnum svokölluðu sem undirbjuggu þetta lagafrumvarp. Það er rétt sem hv. þingmaður segir. Ég tók það fram að í greinargerð með frumvarpi hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og fleiri stendur að sýnt hafi verið fram á að þeir sem verða „fyrir tóbaksreyk heima eða í vinnunni séu í 40–60% meiri hættu á að fá astma“ en aðrir. En rannsóknin sem vitnað var til í þessu sambandi var um áhrif óbeinna reykinga á astmasjúklinga sem er allt annað en haldið er fram í greinargerðinni. Þessari athugasemd var síðan komið á framfæri við ráðuneytið áður en ráðherrann lagði málið fram á þingi.

Hvað gerðist? Greinargerðin er gerð að fylgiskjali með frumvarpinu. Lýðheilsustöð, sem er höfundur að greinargerðinni, skiptir um heimild án þess að geta þess af hverju það var gert. Og það sem er jafnvel enn alvarlegra er að eftir lagfæringarnar svokölluðu er ekki tekið fram að niðurstaðan um 40–60% auknar líkur sé aðeins ágiskun. Það er heldur ekki tekið fram að höfundar þeirrar ritgerðar sem vísað er til gerðu fyrirvara um niðurstöðuna sem Lýðheilsustöð minnist ekkert á. Hún beitir fullyrðingum þrátt fyrir að höfundarnir sjálfir hafi gert fyrirvara. Það eru þessi vinnubrögð sem ég gagnrýni hér. Ég tel að þetta sé málefnaleg gagnrýni og ég hlýt að krefjast svara frá hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvers vegna var staðið svona að samningu þessa frumvarps og þessarar greinargerðar? Ég er hræddur um að (Forseti hringir.) starfsmenn ýmissa annarra opinberra stofnana hefðu þurft að svara fyrir (Forseti hringir.) svona vinnubrögð eins og Lýðheilsustöð viðhafði.