132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:44]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skora á hv. heilbrigðisnefnd að fá bara tölfræðing til fundar við nefndina til að fara yfir niðurstöður þessarar rannsóknar. Við vitum hvernig svona rannsóknir eru, tilteknir kvarðar eru lagðir til grundvallar um það hvort einhver tiltekin áhætta sé af afleiðingum við tilteknar aðstæður, í þessu tilviki óbeinar reykingar og lungnakrabbamein.

Hver var niðurstaðan af þessari rannsókn? Hún var sú að áhættufaktorinn var 1,2 en öryggisbilið fór niður fyrir 1 sem þýðir að í einhverjum tilvikum var aukin áhætta en í einhverjum tilvikum voru áhrifin engin, eða þveröfug. Þetta stendur allt hérna í rannsókninni. Ég hef leitað til tölfræðinga til að fá þá til að skýra þetta út fyrir mér, og þetta er alveg kristaltært. Þetta er málið við þessa WHO-rannsókn. Þetta kemur reyndar fram í niðurstöðu á bls. 1.

Ég hlýt að vekja athygli á því að hv. þingmaður, sem jafnframt er aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, nefnir að ég hafi dregið fram einhverja eina rannsókn. Við erum ekkert að tala um bara einhverja rannsókn sem gerð var úti í bæ. Við erum að tala um rannsókn sem er sú viðamesta sem gerð hefur verið á þessu sviði og er gerð af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Hins vegar var reynt að stinga henni undir stól vegna þess að niðurstöður hennar voru ekki í samræmi við væntingar þeirra sem að henni stóðu. Ef fjölmiðlamenn og blaðamenn hefðu ekki komist á snoðir um hana vissum við ekki um hana og værum ekki að ræða hana hér. Það er nú kannski í samræmi við þann málflutning sem (Forseti hringir.) uppi hefur verið í málum eins og þessum.