132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:03]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um tóbaksvarnir. Í frumvarpinu er lagt til að 2. mgr. 9. gr. laganna verði felld úr gildi eða felld úr lögunum. En 9. g. laganna tilheyrir III. kafla laganna um takmörkun á tóbaksreykingum. Í 1. mgr. 9. gr. er kveðið á um að tóbaksreykingar séu óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf. 2. mgr. 9. gr. er undanþága frá hinni almennu reglu um bann við reykingum í almennu rými þar sem fólk er að störfum eða í frístundatilgangi. Undanþágan felur í sér að reykingar eru heimilaðar á veitinga- og skemmtistöðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um afmörkun svæðis og loftræstingu. Í frumvarpinu er lagt til að þessi undanþága falli út og reykingar á veitinga- og skemmtistöðum verði óheimilaðar.

Það verður að segjast eins og er að það hefur reynst afar erfitt að framfylgja þessu undanþáguákvæði um reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Frumvarp álíka efnis var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en þá var fyrsti flutningsmaður hv. þingmaður Siv Friðleifsdóttir. Það var ekki afgreitt en fékk mikla umræðu í samfélaginu og sýndist sitt hverjum. Helsta gagnrýnin sneri að því að með því að fella þetta ákvæði út væri verið að skerða ákvörðunarrétt eigenda veitinga- og skemmtistaða varðandi nýtingu á húsnæði sínu.

Mér var boðið að vera með á því frumvarpi sem hv. þingmaður Siv Friðleifsdóttir lagði fram á síðasta þingi, en ég þekktist það ekki þrátt fyrir að ég teldi fullgild heilbrigðisfræðileg rök fyrir því að ganga þetta skref. Ég taldi að veitingamenn, en það var mín afstaða, ættu að hafa ákveðið frumkvæði í þessum efnum og það hefur nú gerst. Nú liggur fyrir hver afstaða Samtaka ferðaþjónustunnar til málsins er en innan þeirra raða eru eigendur veitinga- og skemmtistaða. Í ályktun aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar sem haldinn var 7. apríl 2005, um reykingabann á veitingastöðum, segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar haldinn 7. apríl 2005 samþykkir að ganga til viðræðna við stjórnvöld um að reykingar verði bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum frá og með 1. júní 2007. Miklar breytingar hafa orðið síðustu árin á reykingavenjum fólks og tillitssemi aukist að mun. Hótel- og veitingamenn innan samtakanna hafa í fjölmörg ár unnið að því að reyklausum svæðum sé fjölgað og er svo komið að tugir veitingastaða eru alveg reyklausir og fjölmargir staðir til viðbótar leyfa ekki reykingar í matsölum. Miklar umræður hafa verið síðustu árin um starfsumhverfi þeirra sem vinna í reykmettuðu lofti og hafa nokkur lönd þess vegna bannað reykingar á veitingastöðum sem og öðrum vinnustöðum og önnur eru að íhuga það. Veitingamenn leggja ríka áherslu á að breytingar sem gerðar verða á lögum um tóbaksvarnir vegna þessa verði gerðar í samstarfi við greinina.“

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér frá forsvarsmönnum samtakanna eru þau mjög fylgjandi því að þessi tillaga nái fram að ganga og þeir telja styrk í því að slíkt bann hafi stoð í lögum. Það er því ljóst að þessar breytingar á lögum um tóbaksvarnir eru gerðar í fullri þökk samtaka eigenda veitinga- og gistihúsa. Þessi afdráttarlausa afstaða veitingamanna sjálfra bendir ekki til að þeir hafi miklar áhyggjur af því að með samþykkt frumvarpsins sé vegið að eignarrétti þeirra eða umræðurétti yfir eigum þeirra, né að bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum ógni afkomu þeirra. Á það má benda að reynsla annarra þjóða bendir til að ótti manna um að aðsókn að veitinga- og skemmtistöðum minnki í kjölfar slíks banns, virðist vera ástæðulaus.

Virðulegi forseti. Markmið frumvarpsins er vinnuvernd starfsmanna með vísan til gildandi vinnuverndarlaga og tóbaksvarnarlaga og vernd almennings með vísan til hratt vaxandi fjölda vísindalegra sannana fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsuskaða og dauðsföllum. Ég get í raun orðað afstöðu mína til frumvarpsins með tilvísun í alkunna afstöðu frjálshyggjumanna sem er, að fólk hefur frelsi til athafna, að því marki að það skaði ekki aðra. Í bókstaflegri merkingu í þessu samhengi nær frelsi fólks til reykinga að nefi þeirra sem er í umhverfi þess sem reykir. Þessi afstaða byggist fyrst og fremst á því að ég tel vera óyggjandi sannanir fyrir því að óbeinar reykingar leiði til skaða hjá öðrum. Fyrir því liggja margar rannsóknir sem m.a. er gerð grein fyrir í fylgiskjali með frumvarpinu. Það liggur fyrir að sígarettur innihalda mörg eiturefni sem losuð eru við reykingar. Þessi eiturefni berast ekki einungis í reykingamanninn sjálfan, heldur einnig til þeirra sem eru í nánasta umhverfi hans. Á heimasíðu Krabbameinsfélags Íslands sem ég kíkti á í dag var fyrir helgina sett inn frétt þess efnis að Kaliforníufylki hefði nýlega skilgreint sígarettureyk sem eiturefni í umhverfi í flokki með dísilgufu. Og það segir nú nokkuð til um alvarleika þess sem þeir telja sígarettureyk vera.

Allir sem hafa verið í umhverfi þar sem reykingar eru viðhafðar hafa upplifað ertingu í augum, höfuðverk, hósta, særindi í hálsi og í alvarlegri tilvikum, svima og ógleði. Ég hygg að allir geti tekið undir þessa lýsingu. Jafnframt benda rannsóknir til að fullorðnir einstaklingar með astma finni fyrir aukinni andnauð þegar þeir eru í reykumhverfi. Hjartveikir geta fundið fyrir einkennum súrefnisskorts sem lýsir sér í minnkaðri súrefnismettun í blóði. Þá hefur verið sýnt fram á langtímaáhrif af óbeinum reykingum á heilsu fólks sem ef til vill er óþarfi að fara nánar í, svo alkunn er skaðsemi óbeinna reykinga. Þó vil ég benda á að vísindanefnd um reykingar og heilsu sem skipuð var af bresku ríkisstjórninni og falið var að taka saman yfirlit yfir rannsóknarniðurstöðurs á þessu sviði, komst að þeirri niðurstöðu að fólk sem ekki reykir en lifir í reykumhverfi, er í 25% meiri hættu að fá lungnakrabba og hjartasjúkdóma, auk þess sem auknar líkur eru á vöggudauða, öndunarsjúkdómum, sýkingum í miðeyra og astmatilvikum hjá börnum. Þessar niðurstöður nefndar sem skipuð var af bresku ríkisstjórninni hafa verið staðfestar af öðrum rannsóknaraðilum eftir að skýrsla nefndarinnar var gefin út.

Virðulegi forseti. Í fræðslupistli á vegum Krabbameinsfélags Reykjavíkur og tóbaksvarnarnefndar, segir t.d. eftirfarandi um skaðsemi reykinga, með leyfi forseta:

„Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að óbeinar reykingar eru þekkt orsök lungnaskemmda og lungnakrabba hjá þeim sem ekki reykja og eru að öðru leyti með heilbrigð og eðlileg lungu. Þetta gerist til dæmis ef maki reykir eða ef fólk neyðist atvinnu sinnar vegna til að starfa í reykmettuðu umhverfi. Hvað varðar lungnakrabba er áhætta þeirra sem þurfa að þola óbeinar reykingar 30% meiri en þeirra sem anda að sér reyklausu lofti. Í mörgum könnunum er staðfest að því fleiri sígarettur sem makinn reykir daglega þeim mun meiri líkur eru á því að sá sem ekki reykir fái lungnakrabbamein. Bandarísk könnun sýnir fram á að reyklausir starfsmenn veitingahúsa eiga um 50% meiri líkur á að fá lungnakrabbamein en þeir sem ekki reykja og vinna í reyklausu umhverfi. Óbeinar reykingar eru þriðja algengasta þekkta orsök lungnakrabbameins. Í skýrslu landlæknis Bandaríkjanna um óbeinar reykingar er einfaldlega komist að eftirfarandi niðurstöðu: Óbeinar reykingar eru orsök sjúkdóma, þar á meðal lungnakrabbameina, hjá heilbrigðum einstaklingum sem ekki reykja.“

Kristján Sigurðsson, yfirlæknir hjá Krabbameinsfélagi Íslands, segir m.a. í grein í Morgunblaðinu í mars á síðasta ári um reykingar á veitingastöðum, með leyfi forseta:

„Umræðan hér á landi snýst nú um skaðsemi óbeinna reykinga á veitingastöðum. Í því sambandi má benda á að nýjar rannsóknir gefa til kynna að fjögurra klukkustunda dvöl á reykmettuðu veitingahúsi hefur svipuð áhrif og óbeinar reykingar í heimahúsi í heilan mánuð. Vekur þetta óhjákvæmilega upp spurningar um heilsu þeirra sem vinna að staðaldri við slíkar aðstæður og eru niðurstöðurnar í hrópandi mótsögn við þá aðila sem telja þessa áhættu óverulega.“

Til að setja þessar upplýsingar í samhengi við okkar umhverfi þá rifjaði ég upp í morgun að hinn vinsæli söngvari Haukur Morthens, benti á í viðtali stuttu fyrir andlát sitt að hann, maðurinn sem hafði aldrei reykt, var dauðvona af völdum lungnakrabbameins. Hann tengdi sjúkdóminn við það reykmettaða loft sem hann starfaði í árum saman við söngskemmtanir. Árið 1996 birtist minningargrein eftir Ómar Ragnarsson, fréttamann, um tónlistarmanninn Svavar Gests, þar sem hann benti á að á skömmum tíma hefðu fimm hljómlistarmenn látist af völdum þeirrar tegundar krabbameins sem í miklum meiri hluta tilfella er talið að megi rekja til reykinga, beinna eða óbeinna. Þetta voru hljómlistarmennirnir Stefán Jóhannsson, Haukur Morthens, Ingimar Eydal og hjónin Svavar Gests og Ellý Vilhjálms. Ekkert þeirra reykti en öll eiga það sammerkt að hafa unnið í reykjarsvælu skemmtistaða í áratugi.

Ég hafði í síðustu viku samband við dr. Hólmfríði Gunnarsdóttur, sem stundar m.a. rannsóknir á atvinnutengdum sjúkdómum hjá Vinnueftirliti ríkisins, til að leita upplýsinga hjá henni varðandi tengsl óbeinna reykinga og krabbameins, sérstaklega hjá þeim sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum. Í svari hennar kom fram að enginn minnsti vafi væri meðal vísindamanna á að sterk tengsl eru milli reykinga og ýmissa krabbameina, svo sem krabbameina í öndunarfærum og blöðru. Þetta hefði verið bent á í fjölmörgum rannsóknum. Óbeinar reykingar eru einnig gífurlega hættulegar að hennar mati. Með beinni tilvitnun í hana í tölvupósti til mín sagði hún m.a.: „Þarna er enginn minnsti vafi og varla unnt að trúa því að einhverjir haldi öðru fram.“ Hólmfríður sendi mér tilvísun í stóra rannsókn sem gerð var með þátttöku allra Norðurlandaþjóðanna nema Íslendinga og birtist á árinu 1999, sem staðfesta marktækt aukna hættu þjóna og barþjóna að fá krabbamein sem tengja má reykingum í atvinnuumhverfi þeirra.

Eins og kemur fram í fylgiskjali með frumvarpinu hefur þróun í þá veru að banna reykingar á almannafæri og þar með á veitinga- og skemmtistöðum, verið hröð á síðustu árum. Mikil viðhorfsbreyting hefur verið meðal almennings víða um veröld gagnvart reykingum og umburðarlyndi gagnvart þeim minnkar, fyrst og fremst vegna aukinnar þekkingar fólks á skaðsemi óbeinna reykinga. Nú hafa jafnólíkar þjóðir sem Írar og Ítalir lögfest ákvæði um bann við reykingum á veitingastöðum og fregnir benda til að bannið hafi gengið eftir. Eitt af markmiðum með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er að hafa áhrif á reykingar Íslendinga. Það er ekki nokkur vafi á því að þeim sem reykja mun fækka eftir að þetta frumvarp verður að lögum. Það sýnir reynsla frá öðrum löndum. Það eitt og sér er ákjósanleg niðurstaða enda er heilbrigðiskostnaður ríkisins af völdum reykinga verulegur þó vissulega vegi tekjur hins opinbera af sölu á tóbaki að einhverju leyti á móti. Á það má benda að reykingamönnum hér á landi hefur fækkað á síðustu árum og nú er það svo að á árinu 1985 voru 31% kvenna sem reyktu. Árið 1995 er það komið niður í 27% og árið 2005 er það komið niður í 19%. Varðandi karla voru daglegar reykingar karla á árinu 1985 36%, rúmur þriðjungur, var komið niður í 27% árið 1995, og niður í 22% árið 2005. Ég held að það sé alveg ljóst að þessi vani er á undanhaldi og það er mikill minni hluti þjóðarinnar sem reykir að staðaldri.

Það má ljóst vera af orðum mínum nú að ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram og ég styð það. Þeim fyrirvörum sem ég hafði á frumvarpinu fyrir ári síðan varðandi afstöðu veitingamanna, hefur núna verið aflétt en ég taldi að það væri mjög mikilvægt að þeir væru samþykkir því að fara þessa leið þannig að ekki kæmi þungi í umræðuna yfir að verið væri að taka af þeim yfirráðarétt yfir eignum þeirra. Ég hafði reyndar einhverjar hugmyndir um að slík afstaða gæti legið fyrir, en fyrst svo er ekki þá hlýt ég að telja nú hafi verið stigið yfir síðasta þröskuldinum og ég tel að þetta frumvarp ætti að geta náð að ganga fram. Auðvitað mun ég, eins og aðrir í heilbrigðis- og trygginganefnd, fara yfir frumvarpið og skoða þær athugasemdir sem hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson hafði hér fram að færa. En ég tel hins vegar, og það er sannfæring mín, að það séu algerlega óyggjandi vísindalegar sannanir fyrir því hve mikilli hættu fólki stafar af óbeinum reykingum og okkur beri skylda til að vernda þá sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum fyrir slíkri hættu.