132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:20]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú kallar hv. þingmaður þetta forsjárhyggju. Það mætti kannski með einhverjum rökum segja að í frumvarpinu sé keimur af því. Það var þess vegna að ég hikaði síðasta vor við að taka þátt í að samþykkja slíkt frumvarp. Mér fannst því skipta verulegu máli þegar veitingamenn sjálfir komu fram með þessa tillögu. Þeir eru samþykkir því að fara þessa leið. Og ekki nóg með það heldur telja þeir ákveðna festu í að lögleiða þetta. Þegar þeir sem málið varðar einna mest, sem hafa verið dregnir sterkast fram í rökstuðningi á móti slíkri tillögu, vilja fara þessa leið tel ég ekkert því til fyrirstöðu að fara að vilja þeirra. Þar liggur afstaða mín, eins og fram kom í ræðu minni áðan.

Varðandi vínandann þá mundi ég ekki alveg leggja það að jöfnu. Þegar hv. þingmaður reykir í nálægð við mig fer reykurinn í lungu mín en þegar hann drekkur hefur það engin áhrif á mig.