132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að málið sem við ræðum um hér er afar mikilvægt. Það ber að fagna því sérstaklega að það skuli komið í umræðu á Alþingi. Að mínu mati er mikilvægt að það verði að lögum sem allra fyrst.

Á síðasta þingi fluttum við, sú er hér stendur og þingmennirnir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Jónína Bjartmarz og Þuríður Backman, frumvarp til laga um bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum. Það var sambærilegt við frumvarpið sem við ræðum hér í dag en átti að taka gildi ári fyrr en frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra. Það átti að taka gildi 1. maí 2006, í vor, en ekki 1. júní 2007, eftir rúmt ár. Núna færist allt aftur um eitt ár ef svo má segja.

Frumvarp okkar vakti mikla umræðu þegar það var lagt fram á síðasta þingi. Að mínu mati hefur sú umræða fært okkur nær því takmarki að hafa reyklausa veitinga- og skemmtistaði. Umræðan varð því til góðs. Á þessum tíma hafa t.d. Samtök ferðaþjónustunnar tekið allt annan pól í hæðina en þau gerðu á fyrri stigum, sem ég fagna sérstaklega.

Á sínum tíma töldu menn að reykingar væru hættulausar. Annað hefur aldeilis komið í ljós þótt sumir dragi enn í efa að bæði reykingar og óbeinar reykingar séu hættulegar. Það verður að segjast eins og er, að tóbaksfyrirtækin hafa verið dugleg við að halda uppi áróðri gegn öllum vísindalegum niðurstöðum um að reykingar séu hættulegar. Menn svífast einskis í þeim málatilbúnaði. Ljóst er að tóbaksfyrirtækin leggja mikla fjármuni í að hafa áhrif á þá sem móta almenningsálitið. Þau leggja mikið á sig til að halda því að fólki að reykingar séu flottar og nánast heilsusamlegar, sem er algjörlega fráleitt. Því miður einbeita tóbaksfyrirtækin sér nú að þróunarríkjunum þar sem menn eru fáfróðir og líklegri til að trúa ruglinu sem tóbaksfyrirtækin halda á lofti.

Það er nú búið að sýna með fjölda rannsókna að tóbaksreykingar eru mjög hættulegar og óbeinar reykingar eru líka hættulegar. Það hefur komið fram í fyrri ræðum að það að vera í fjóra tíma á reykfullum skemmtistað jafngildir því að búa við óbeinar reykingar í heimahúsi í mánuð. Þetta er ótrúlegt. Það að vera í fjóra tíma á skemmtistað er nokkuð sem flest okkar höfum reynt. Það er mjög gaman og allt það en það er hættulegt. Þetta er eins og að búa við óbeinar reykingar í heimahúsi í mánuð.

Það hefur mælst jafnhátt nikótínmagn í blóði fólks sem reykir ekki en vinnur á skemmtistöðum og í blóði fólks sem reykir. Það er ótrúlegt en svona er þetta. Hér hafa verið dregnar fram vísindarannsóknir sem segja að óbeinar reykingar séu ekki hættulegar. Ég vísa því á bug. Auðvitað er hægt að draga fram rannsóknir sem sýna hitt og þetta en flestar rannsóknir sýna að óbeinar reykingar eru hættulegar. Ég held að mjög fáir dragi það í efa. Þeir sem það gera eru á miklum villigötum.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta byggist á vinnuvernd, þ.e. að vernda þá sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum. Megininntakið er ekki að gæta að þeim sem þangað koma til að njóta matar eða skemmtunar heldur er verið að hugsa um starfsfólkið sjálft.

Sumir spyrja: Af hverju getur þetta fólk ekki unnið annars staðar? Þá mætti alveg spyrja um aðra staði þar sem eru hættur, svo sem álver eða byggingarvinnu. Af hverju í ósköpunum að hafa einhverja vinnuvernd þar? Þetta fólk getur bara unnið annars staðar. Það á að vera skylda þeirra sem reka vinnustaði að búa eins vel að starfsfólki sínu og hægt er, án þess að í því felist einhver útópía. Þannig er einmitt 65. gr. vinnuverndarlaga. Þar kemur fram að atvinnurekanda beri að grípa til nauðsynlegra forvarna til að koma í veg fyrir mengun á vinnustað eða, sé þess ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt o.s.frv.

Í dag búa nánast allir við reykleysi á vinnustað nema þeir sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum. Þar er undanþágan sem við ætlum að fella úr gildi. Mér skilst að um 5000 manns vinni á þessum stöðum. Þeir starfsmenn njóta ekki eðlilegrar vinnuverndar í dag.

Ég vil líka draga fram, virðulegur forseti, að Alþingi hefur samþykkt heilbrigðisáætlun. Frumvarp sem hér er flutt er í anda þeirrar áætlunar. Í þeirri áætlun er markmiðið að reyna að draga úr reykingum. Í dag reykja 20% Íslendinga. Það eru allt of margir. En gott og vel. Þetta eru 20%. Við viljum gjarna ná því niður fyrir 15% árið 2010. Tæplega 8% ungmenna 14–17 ára reykja í dag. Stefnan er að ná því niður fyrir 5% árið 2010. Þó þetta frumvarp sé vinnuverndarfrumvarp — við erum að hugsa um starfsfólkið — þá mun samþykkt þess samt hafa áhrif á reykingar almennt. Það hefur sýnt sig í öðrum ríkjum þar sem búið er að taka þetta skref að úr reykingum dregur almennt. Það hefur líka þau jákvæðu áhrif þó það sé ekki megininntak frumvarpsins. Þá hefur það þau jákvæðu óbeinu áhrif líka. Frumvarpið er því í anda heilbrigðisáætlunar.

Tónninn hjá Samtökum ferðaþjónustunnar hefur breyst mjög verulega. Hv. þm. Ásta Möller dró það fram og notaði viðhorfsbreytingu þeirra sem rök fyrir því að styðja málið. Mér finnst mjög eðlilegt og gott að hv. þingmaður dregur það fram. Ég hefði reyndar stutt málið óháð því hvað Samtök ferðaþjónustunnar álykta og þegar frumvarpið kom fram hér frá mér og fleirum voru Samtök ferðaþjónustunnar ekki búin að álykta um þetta mál. Tónninn frá mörgum innan þeirra raða á sínum tíma þegar þetta frumvarp kom fyrst fram og fyrir þann tíma var eitthvað á þessa leið: „Þarf að stíga þetta skref? Það eru nú margir staðir reyklausir í dag. Fólk getur nú farið þangað. Það eru margir sem reykja. Eitthvert verða þeir að fara. Ef fólk hefði verið ákveðnara í að vilja ekki fara á reykfyllta staði hefði þetta nú gengið hraðar. Þá væri þetta nú allt reyklaust, er það ekki? Hingað koma margir túristar, ferðamenn, Japanir, Danir, Spánverjar og fleiri og þeir reykja mjög margir. Hvert á þetta fólk að fara? Af hverju má ekki bara auka eftirlit með núgildandi lögum? Er það ekki bara langeðlilegast?“ Þetta var tónninn. Þessi tónn hefur breyst. Ég tek ofan hattinn fyrir Samtökum ferðaþjónustunnar af því nú er tónninn þessi: „Jú, við teljum að þetta sé að koma. Þessi lög munu koma, þessi andi mun koma og hann er nú þegar kominn í mörgum öðrum ríkjum.“ Í Kaliforníu bönnuðu menn 1994. Það er mjög langt síðan, má segja. Þar bönnuðu menn reykingar á veitingastöðum. Svo útvíkkuðu þeir það til skemmtistaða líka 1998. Mörg fylki í Bandaríkjunum hafa stigið þetta skref. New York, skemmtiborgin New York tók þetta skref fyrir þremur árum og þar gengur glimrandi vel. Þar er að aukast stuðningur við bannið. Enginn tapaði, enginn í heildina. Einhverjir kannski töpuðu einhverju af sínum kúnnum. Aðrir fengu miklu fleiri kúnna o.s.frv. Í heildina var því ekkert tap í ferðaþjónustu og veitingaþjónustu.

Samtök ferðaþjónustunnar sjá að þessi lög munu koma. Það er eðlilegt að starfsfólk búi við hreint loft á sínum vinnustað. Samtök ferðaþjónustunnar, ímynda ég mér, vilja vera með í að móta þessa löggjöf og taka þetta skref. Samtök ferðaþjónustunnar eru ekki að biðja um reykherbergin sem hafa verið nefnd hérna. Af hverju biðja þau ekki um þessi reykherbergi? Er ekki frábært að bjóða upp á reykherbergi? Þá geta þeir sem reykja farið þangað og allir eru sáttir, er það ekki? Nei, Samtök ferðaþjónustunnar biðja ekki um þessi reykherbergi. Rökin sem hafa verið færð fyrir því að ekki er beðið um þau eru að líklega verða þau líka bönnuð í framtíðinni, líklega. Við vitum það nú reyndar ekki. En það er mjög líklegt af því að andinn er sá að menn eru farnir að sjá að hvað reykingar eru hættulegar. Það er andinn og þróunin. Nei, sjónarmiðið er aðallega samkeppnissjónarmið, þ.e. sumir veitingastaðirnir og skemmtistaðirnir eiga auðvelt með að setja upp reykherbergi, aðrir ekki. Því finnst þeim væntanlega betra að allir séu settir undir sama hattinn, þ.e. að hvergi megi reykja, ekki heldur í reykherbergjum og þá þurfi ekki að koma þeim einu sinni upp, að þetta sé bara mjög einfalt og ekki reykt á þessum stöðum. Andinn hefur breyst mjög mikið hjá Samtökum ferðaþjónustunnar og mjög til góðs.

Stéttarfélagið Efling ályktaði sérstaklega þegar frumvarpið kom fram í fyrra. Innan Eflingar eru margir sem vinna á veitingahúsum, skyndibitastöðum og hótelum. Stéttarfélagið Efling fagnaði frumvarpinu. Þeir segja, með leyfi forseta, í umsögn sinni:

„Stjórn Eflingar lýsir yfir einróma stuðningi við frumvarpið þar sem mjög mikilvæg vinnuvernd felst í því gagnvart hópum starfsmanna á veitingastöðum sem í dag verða fyrir heilsutjóni vegna óbeinna reykinga.“

Ég ætla ekki að þreyta þingmenn með því að lesa þetta allt, en stéttarfélagið Efling styður þetta frumvarp mitt. Ég vil líka nefna það að MATVÍS, Samtök matreiðslu- og veitingamanna, styður frumvarpið líka. Þeir vilja að það verði samþykkt svo félagsmenn þar njóti eðlilegrar vinnuverndar. Hjartavernd ályktar um þetta frumvarp. Gunnar Sigurðsson prófessor, formaður stjórnar Hjartaverndar, skrifar undir stuðning við frumvarpið. Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, skrifar undir ályktun frá félagi þeirra um stuðning við frumvarpið og það er dregið sérstaklega fram að virða beri rétt starfsmanna til þess að þurfa ekki að anda að sér lofti frá öðrum menguðu af tóbaksreyk. Læknafélag Íslands — Sigurbjörn Sveinsson formaður þess ritar undir — styður frumvarpið eindregið og telur engin málefnaleg rök fyrir því að þetta starfsfólk njóti lakari vinnuverndar en aðrir landsmenn.

Það er búið að vitna í nokkrar greinar sem hafa verið skrifaðar og ég vil gera það hér einnig. Ómar Ragnarsson, fréttamaður og skemmtikraftur, skrifar grein sem hann kallar Heimild til að drepa. Hún birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2005. Þetta er tilvísun í James Bond, „Licence to Kill“ og hann kemur inn á það. Þar dregur hann það fram að kollegar hans sem hér voru nefndir, Haukur Morthens, Ingimar Eydal, Svavar Gests og Stefán Jóhannsson unnu á reykfylltum vinnustöðum. Þeir fengu — það er mjög erfitt að sanna það en það er mjög líklegt — þeir féllu fyrir hendi óbeinna reykinga, fengu krabbamein vegna óbeinna reykinga. Hann vitnar í viðtöl við þá, m.a. Hauk Morthens og Ingimar Eydal þar sem þeir voru báðir mjög ósáttir við að hafa veikst, ekki reykjandi sjálfir heldur að öllum líkindum vegna reykinga annarra. Haukur Morthens segir í þessu viðtali, sem var reyndar sjónvarpsviðtal, skilst mér, miðað við upplýsingar Ómars, að í pásunni kunni hann ekki heldur við að biðja þá sem spiluðu með sér að reykja ekki. Þá voru þeir að reykja þegar þeir voru að slappa af í pásunni. Hann var því í reyknum allan tímann.

Guðmundur Þorgeirsson skrifar ritstjórnargrein í 3. tölublað 91. árgangs Læknablaðsins árið 2005. Niðurstaða hans þar er mjög merkileg. Hann segir, með leyfi forseta:

„Árangur af reykingabanni á veitingastöðum hefur verið rannsakaður og í ljós hefur komið að slík aðgerð skilar mikilli heilsubót fyrir starfsfólk bæði í bráð og lengd. Hér er því ekki verið að fjalla um eitthvað óljóst og óskilgreint. Tóbaksreykur í andrúmslofti veitingastaða vegur þyngra sem heilsuspillir viðkomandi starfsfólks en flest það sem vinnueftirlitsstofnanir beina sjónum sínum að og vegur þyngst allra krabbameinsvalda í vinnuumhverfi.“

Svo segir síðar í greininni, með leyfi forseta:

„Ástandið eins og það er núna er hins vegar fullkomlega óverjandi og styðst ekki við nein haldbær rök eða raunverulega hagsmuni. Alþingi Íslendinga legði því þungt lóð á vogarskálarnar fyrir bættri heilsu landsmanna og réttlátri vinnuvernd með því að samþykkja það lagafrumvarp sem nú liggur fyrir þinginu um tóbaksvarnir.“

Þar er reyndar verið að vísa í lagafrumvarpið sem að sú sem hér stendur og fleiri lögðu fram hér á þingi á síðasta ári.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er löngu tímabært að stíga þetta skref. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmaður Ásta Möller sem er mjög öflugur talsmaður Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum að mínu mati skuli segja hér úr ræðustól að hún voni að frumvarpið nái fram að ganga. Mér finnst það mjög ánægjulegt. Þetta dreg ég sérstaklega fram af því að hér hafa þingmenn talað gegn málinu. Það er allt í lagi með það. Fólk hefur misjafnar skoðanir.

Í útvarpsviðtali 19. febrúar á síðasta ári, í þættinum Í vikulokin var sú er hér stendur í þætti ásamt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Þá var mikil umræða um þetta mál. Þá sagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson þegar við vorum að ræða um þetta vinnuverndarmál, með leyfi virðulegs forseta:

„Nei, veistu það að ég held að enginn — og nú segi ég þetta ábyrgðarlaust — ég held að enginn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins muni styðja þetta mál. Ég held að menn hafi almennt verið þeirrar skoðunar að þegar tóbaksvarnarlögum var breytt síðast og hömlur settar á reykingar mjög miklar, að þá held ég að menn hafi áttað sig á því að þeir hafi gert mistök.“

Virðulegi forseti. Við sjáum mikla breytingu núna frá því að þessi orð féllu. Ég er alveg sannfærð um að mjög margir þingmenn séu á þeirri skoðun að það eigi að stíga þetta skref. (Gripið fram í.) Allir ráðherrarnir, rétt. Þetta frumvarp er búið að fara í gegnum ríkisstjórn og þingflokka. En einhverjir þingmenn hafa væntanlega áskilið sér rétt til að vera á móti frumvarpinu. En það er alveg ljóst að það er ekki rétt að enginn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins muni styðja þetta. Ráðherrarnir hafa nú þegar gert það og einn helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum, hv. þm. Ásta Möller hefur líka lýst því yfir hér úr þessum stól.

Ég tel að þetta frumvarp sé ekki svokallað forræðismál. Það má kannski færa rök fyrir því að í því sé einhver forræðishyggja af því að þetta eru almennar reglur. (Gripið fram í.) Já, ég skal viðurkenna að það er verið að reyna að hafa áhrif með þessum reglum til þess að ekki sé verið að reykja ofan í fólk sem er að vinna á viðkomandi stað. Ef það er forræðishyggja þá er þetta að einhverju leyti forræðishyggja. En hvað er forræðishyggja? Í siðuðum samfélögum sameinast menn um að setja almennar reglur sem eru skynsamlegar. Þessar reglur eru þannig.

Hér fór fram umræða áðan um áfengi. Á að banna áfengi af því fólk undir áhrifum áfengis getur haft ýmisleg neikvæð áhrif o.s.frv.? Ég vil benda á að bannað er að keyra undir áhrifum áfengis. Er það forræðishyggja? Kannski. Af hverju er það bannað? Það er af því að það hefur skaðleg áhrif á aðra. Það er margsannað. Ég vil líka benda á að lög kveða á um að fólk skuli að nota bílbelti við akstur bíla. Af hverju í ósköpunum eigum við að fara eftir því? Er eðlilegt að setja slík lög? Er það ekki forræðishyggja? Kannski. En það bara sýnir sig að það er eðlilegt að borgararnir séu í bílbelti til að minnka þann samfélagsskaða sem verður ef þeir eru ekki í bílbeltum og lenda í slysi og auðvitað þann skaða sem hver einstaklingur verður fyrir. En þetta veldur líka miklum samfélagsskaða. Það sama á við í þessu máli. Það er mikill samfélagsskaði að kalla veikindi, jafnvel dauða, veikindi og dauða yfir fólk sem (Gripið fram í.) vinnur á veitinga- og skemmtistöðum. Því eru mjög sterk rök með því að stíga þetta skref.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja að þetta skref hefur verið stigið annars staðar. Það er nú ekki eins og við séum að finna upp hjólið. Við erum ekki fyrst því miður. Það hefði verið gaman að vera meðal þeirra fyrstu. Fyrsta Evrópuríkið sem bannaði reykingar á veitinga- og skemmtistöðum — það er nú alltaf leiðinlegt að nota orðið bannaði. Maður ætti kannski frekar að segja: tryggði, fólkinu heilbrigt loft á viðkomandi vinnustað — fyrsta Evrópuríkið sem gerði það var Írland. Það er stórmerkilegt af því Írar eru kráarþjóð. Maður tengir Írland við krár, reykingar á krám og annað slíkt. Þar hefur þetta gengið mjög vel, reykleysið, ef svo má segja. Það hefur gengið vel í Noregi. Þar eykst stuðningur við bannið. Það gengur vel í Svíþjóð. Það gengur vel alls staðar þar sem þetta hefur verið reynt. Ég tel því að hæstv. heilbrigðisráðherra sé hér að stíga mikið gæfuspor og ríkisstjórnin öll og ég vænti þess að þingmenn muni styðja þetta mál þegar það kemur vonandi til afgreiðslu hér í vor.