132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:45]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur var að mörgu leyti sérkennileg. Hún stillti því upp sem algerum andstæðum að ná fram því markmiði að vernda þá sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum fyrir óbeinum tóbaksreykingum og því að allir séu í reyk alla daga og alls staðar. Það er að sjálfsögðu hægt að fara mildari leið að sama markmiði.

Ég hef sagt það fyrr í dag að fortakslaust bann við reykingum á skemmti- og veitingastöðum hugnast mér alls ekki. Mér finnst felast í því dæmalaust stjórnlyndi og óásættanleg forsjárhyggja. Að sumu leyti er hægt að túlka þetta sem árás á eignarrétt og athafnafrelsi fólks, þegar kafað er ofan í málið. Jafnvel mætti túlka það sem árás á friðhelgi einkalífsins, svo ofboðslega langt nær þetta bann. Það er klárlega hægt að ná þessu markmiði með því að fara mildari leiðir. Á það hefur verið bent í umræðunni í dag, sérstaklega þar sem stigið er skref í átt að markmiði sem hægt væri að endurskoða síðar. Það eru til mildari leiðir, eins og ég sagði áðan, þar sem fólki er leyft að reykja í tilteknum rými þar sem ekki er veitt þjónusta eða að tilteknir veitingastaðir auglýsi sig sem reykveitingastaði, með reykrými, og þá sæki þangað sem vilja vera í slíku lofti en tryggt sé að þjónusta eða skemmtikraftar lendi ekki í reyk eða reykmettuðu lofti.

Það er hægt að fara fjöldamargar leiðir að þessu markmiði. Ég vildi spyrja hv. þingmann sérstaklega hvort hún teldi ekki um að ræða árás á eignarrétt og athafnafrelsi. Er hægt að verja það þegar allt kemur til alls fyrst hægt er að ná markmiðum um vinnuvernd með allt öðrum hætti en hér er lagt til? Þetta er ekki bara frumvarp um vinnuvernd heldur um miklu fleira.