132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:48]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, þetta er frumvarp um vinnuvernd. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu að hugmyndafræðin á bak við frumvarpið er vinnuvernd. Það er verið að hugsa um starfsfólk á viðkomandi vinnustað, afnema undanþáguna gagnvart veitinga- og skemmtistöðum. Það er ekki verið að hugsa um gestina sem þangað koma. Hv. þingmaður er á villigötum ef hann heldur það. Hins vegar mun frumvarpið, verði það samþykkt sem ég býst við, líka hafa áhrif á gestina. Það sýnir sig annars staðar að gestirnir reykja minna af því að þeir þurfa að fara út o.s.frv. En frumvarpið er vinnuverndarfrumvarp.

Jú, það væri hægt að fara aðrar leiðir, t.d. að hafa reykherbergi eins og Svíar gera. En flestar þjóðir sem hafa tekið þetta gæfuskref hafa valið að fara ekki þá leið, að hafa slík herbergi. Það er hægt en það er að mínu mati óskynsamleg leið.

Ég er sammála Samtökum ferðaþjónustunnar. Þau hafi ekki beðið um þessi herbergi, væntanlega af því að þau telja óæskilegt að bjóða upp á slíkt, að kalla það yfir sig að þurfa að setja upp herbergi, þótt þau hafi kannski ekki ályktað beint um það. En ég hef rætt við forustu þeirra og slík herbergi bjóða upp á að þá gangi ekki hið sama yfir alla staðina, að sumir hafi reykherbergi og aðrir ekki. Það telur forusta þessara samtaka ekki rétt.

Ég vil líka minna á, varðandi frelsi, friðhelgi einkalífsins og allt þetta, að frelsi eins má ekki ganga freklega á frelsi annarra. Fólki sem vinnur á þessum stöðum á að vera frjálst að anda að sér hreinu lofti. Punktur. Út á það gengur þetta mál.