132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:52]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Að því var vikið að einhverjir hefðu í fyrndinni talað fyrir því að reykingar væru flottar og jafnvel gefið það í skyn að þær væru heilsusamlegar. Ég held að það hafi ekki komið fram í þessari umræðu. Þeir sem hafa mælt gegn frumvarpinu eða haft athugasemdir við það hafa tekið það fram að þeir mæli reykingum alls ekki bót og ekki ætla ég að gera það. Ég hef skömm á þeim, reyki ekki sjálfur og hef aldrei gert.

Síðan var sagt að tóbaksfyrirtækin hefðu veifað einhverjum rannsóknum framan í menn til að réttlæta tilveru sína og framleiðslu. Talað var um „einhverjar rannsóknir“ sem lagðar hefðu verið fram til að draga úr trúverðugleika þessa máls. Mér finnst dálítið ódýrt að tala um „einhverjar rannsóknir“ þegar fyrir liggur viðamesta rannsókn sem gerð hefur verið á tengslum óbeinna reykinga og lungnakrabbameins, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lét gera, tíu ára rannsókn sem fram fór í sjö Evrópulöndum.

Hún leiddi tvennt í ljós. Hún leiddi í ljós að ekki væru vísbendingar um að tengsl milli óbeinna reykinga og lungnakrabbameins annars vegar og hins vegar að börn reykingamanna væru ekki í meiri hættu en börn þeirra sem ekki reykja á að fá lungnakrabbamein. Ég er ekki að lýsa skoðun minni heldur skoðun þeirra fjölmörgu sérfræðinga sem unnu þessa rannsókn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Finnst hv. þingmanni ekki einkennilegt að frumvarpshöfundar og Lýðheilsustöð geti ekki þessarar rannsóknar í sinni miklu umfjöllun? Ég spyr einnig hv. þingmann: Hefði honum ekki þótt ástæða til þess að geta þessarar niðurstöðu? Ef niðurstaða vísindamannanna og rannsóknarinnar hefði verið allt önnur þá efast ég nú ekki um að hv. þingmaður hefði veifað henni í (Forseti hringir.) ræðustól Alþingis.