132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:55]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt svona málflutningur sem ég kom inn á áðan. Hér er dregin fram rannsókn sem sögð er viðamesta rannsóknin, hún nær yfir tíu ára tímabil o.s.frv., en sýndi engar vísbendingar um tengsl milli óbeinna reykinga og lungnakrabba. Með þessu tortryggja menn að óbeinar reykingar hafi neikvæð áhrif, með þessum málflutningi. Hér er greinilega verið að tortryggja það.

Það má vel vera að þessi rannsókn hafi farið fram. Ég hef engar upplýsingar um það en ég bara veit að óbeinar reykingar eru mjög skaðlegar. Það er bara samdóma álit langflestra sem þau mál hafa skoðað og um þau fjallað.

Það kemur líka fram í frumvarpinu að í rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, um tóbaksvarnir er staðfest að aðilar hans, t.d. Ísland, viðurkenni að vísindaleg gögn hafi með óyggjandi hætti sýnt að óbeinar reykingar valdi dauða, sjúkdómum og fötlun og þau lönd skuldbindi sig til þess, hvert og eitt, að setja lög sem verndi fólk gegn óbeinum reykingum á vinnustöðum, innanhúss, í almenningsfarartækjum o.s.frv.

Ég skil ekki af hverju við þurfum, árið 2006, að standa í svona þrasi. Það er ljóst að óbeinar reykingar eru mjög skaðlegar. Hvað á hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson við með þessum rökum, með þessu tali? Hvert er hv. þingmaður að fara? Er ekki ljóst, að mati hv. þingmanns, að óbeinar reykingar séu skaðlegar?