132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[19:05]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir. Ég vil byrja á að fagna fram komnu frumvarpi og þó fyrr hefði verið, eins og ég veit að margir munu taka undir. Ég er ein af þeim þingmönnum sem voru flutningsmenn að mjög svipuðu frumvarpi sem var lagt fram á síðasta þingi. Búið er að rekja þá sögu hér hvers vegna brugðið var á það ráð að hafa það frumvarp þingmannafrumvarp í stað frumvarps frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Ástæðan var einföld og augljós, það náðist ekki samstaða meðal stjórnarflokkanna um að leggja það fram. Þar sem ég er ein af fjölmörgum bæði þingmönnum og íbúum þessa lands sem telja að okkur löggjafanum beri að gera það sem í okkar valdi stendur til að takmarka notkun tóbaks, reykingar sérstaklega, þá hafi verið tímabært fyrir ári að stíga það skref sem við erum að gera núna í framhaldi af samþykkt og undirskrift íslenska ríkisins á rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um takmörkun á reykingum. Við erum sem sé búin, eins og aðrar þjóðir, að skuldbinda okkur til þess að standa að löggjöf sem takmarkar reykingar. Við vorum meðal fyrstu þjóða til að undirrita þennan samning og því ber okkur að fylgja honum eftir og standa að viðhlítandi löggjöf.

Ég tel að ekki nokkur maður í landinu efist um skaðsemi reykinga og skaðsemi reykinga á heilsu þess sem reykir. Það tók mörg ár og áratugi að ná fram réttum upplýsingum og niðurstöðu rannsókna á því hvaða áhrif reykingar hafa á mannslíkamann. Það er í eðli sínu þannig að lifnaðarhættir, t.d. reykingar vinna á heilsu fólks á löngum tíma og skaðsemin er lengi að koma fram. Það var því ekki fyrr en reykingar urðu almennar upp úr síðari heimsstyrjöldinni eftir mjög markvissa markaðssetningu á sígarettunum að menn fóru, og þá sérstaklega læknar, að taka eftir því að með auknum reykingum fór að bera á sjúkdómum sem ekki höfðu verið algengir áður og mátti tengja reykingavenjum fólks. Það tekur síðan einhverja áratugi að fá þetta staðfest með vísindalegum hætti. Eitt er víst að þeir aðilar sem stóðu að sjálfstæðum og óháðum rannsóknum fengu flestir hverjir að finna fyrir svipu tóbaksframleiðenda og þeirra niðurstaðna sem tóbaksframleiðendur náðu fram í þeim rannsóknum sem þeir styrktu og stóðu að, sem bar þá ekki alltaf saman við þær niðurstöður sem óháðir vísindamenn komust að.

Tóbaksiðnaðurinn er mjög sterkur, hefur verið það og miklir fjármunir eru því þar í húfi. Ef við ætlum að halda hér áfram að fara yfir þær rannsóknir sem vísað er til bæði í þessu frumvarpi og því sem var lagt fram fyrir ári, þá tel ég rétt að það verði skoðað samhliða hverjir hafa staðið að baki þeim niðurstöðum og rannsóknum sem verið er að vísa til þar sem efast er um skaðsemi óbeinna reykinga. Það er bara þannig, hæstv. forseti, að tóbaksiðnaðurinn kann sitt fag og hefur í gegnum árin haft á sínum snærum mjög hæfa vísindamenn sem hafa unnið í þeirra þágu. Ljóst er að tóbaksiðnaðurinn hefur verið að fikta með framleiðsluna og aukið skaðleg áhrif af tóbakinu, aukið áhrif t.d. nikótíns á heilann og ekki viljað viðurkenna það, neitað því að hafa vísvitandi verið að stjórna framleiðslunni þannig að nikótínáhrifin yrðu meiri til að binda hvern og einn einstakling fastari böndum við notkun tóbaks og gera hann háðari nikótíni. En þar sem þeir neituðu þessu um margra ára skeið ber ég, hæstv. forseti, ekki nokkra virðingu fyrir þeim niðurstöðum og trúverðugleika tóbaksiðnaðarins eins og hann hefur stundað markaðssetningu sína.

Þetta var aðeins innskot hvað varðar niðurstöður rannsókna þó að í frumvarpi þessu sé eingöngu, ég segi eingöngu, vísað til 79 greina og rannsókna til stuðnings frumvarpinu. Það er eðlilegt að leita til Lýðheilsustöðvar og tóbaksvarnanefndar hvað varðar gögn til að undirbyggja frumvarp því þar eru sérfræðingarnir. Sérfræðingar slíkra stofnana eiga að vera liðsmenn okkar í þessu máli. Við eigum ekki að leita til tóbaksframleiðenda til að fá liðsstyrk heldur til þessara aðila, landlæknis og landlæknisembættisins. Við höfum góðan vegvísi sem er Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. Þrátt fyrir þá umræðu sem hér hefur verið og tilvísun í rannsókn sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stóð að og birt var 1998 erum við eftir sem áður búin að skrifa undir rammasamning sem ég vísaði til og við skrifuðum undir 16. júní 2003. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin væri ekki að setja fram rammasamning um takmörkun og bann á reykingum nema sú alþjóðastofnun telji sig geta gert það og með samningi byggðum á niðurstöðum þeirra rannsókna sem hún sjálf hefur staðið að eða hún gerir að sínum.

Ég tel, hæstv. forseti, að enginn efist um skaðleg áhrif beinna reykinga. En það eru óbeinar reykingar sem menn eru enn að draga í efa að hafi skaðleg áhrif. Við erum hér að ræða um takmarkanir á reykingum út frá vinnuvernd. Það er mikil mengun sem kemur frá sígarettum eða reykfærum, loftmengun, við getum kallað það tóbaksmengun og hliðarreykurinn sem kemur frá hvort heldur er sígarettum eða vindlum eða öðrum reykfærum er mengaðri, hann er hættulegri, hann er mettaðri en sá reykur sem reykingamaðurinn sjálfur andar að sér og það kemur eingöngu til af því að hitastigið er lægra, hitastig eldsins er lægra þegar reykingamaðurinn er ekki að sjúga að sér reyknum og þar af leiðandi er bruninn minni og mengunin meiri. Þetta frumvarp er því í sjálfu sér ekki tóbaksvarnir í þeim skilningi að verið sé að draga beint úr áhrifum nikótíns og nikótínsnautnar og -fíknar á hvern einstakling heldur vinnuvernd og þá sérstaklega starfsmanna á veitinga- og kaffihúsum.

Sú ánægjulega þróun hefur orðið að stöðugt hefur dregið úr reykingum fullorðinna hér á landi og á síðasta ári voru daglegar reykingar kvenna komnar niður í 19% og karla í 22%. Sem betur fer hefur dregið úr reykingum ár frá ári og ég ætla að vona að svo haldi áfram. En það þýðir ekkert að sofna á verðinum því að allt hefur þetta áhrif, líkt og það að draga úr heimildum fólks til þess að reykja hvar sem er. Núgildandi lög, þ.e. að ekki megi reykja á opinberum stöðum og í þjónusturýmum annarra en veitinga- og kaffihúsa og skemmtistaða, hafa haft þau áhrif að almennt hefur dregið úr reykingum. Þegar fólk getur ekki reykt eða dregið upp sígarettuna hvar sem er og reykt þegar því sýnist hjálpar það hverjum og einum reykingamanni til þess að draga úr reykingum og hjálpar honum til að hætta þannig að það er ákveðið forvarnastarf í þessu líka gagnvart reykingamanninum sjálfum.

Ég tel að við eigum að halda áfram í forvarnastarfi og það er mín ósk að við höldum áfram að vera í forustusveit þeirra þjóða sem standa sig vel í reykinga- og tóbaksvörnum og höfum þar hag lýðheilsu í fyrirrúmi. Við vorum það en höfum því miður dregist aðeins aftur úr með því að einhenda okkur ekki í að takmarka reykingar samkvæmt því frumvarpi sem nú liggur fyrir.

Auðvitað er mjög mikilvægt að hafa eigendur gisti- og veitingahúsa og aðila í ferðaþjónustunni með sér í þessari ferð. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með að heyra í þeim tóninn þar til þeir núna á síðasta ári lýstu því yfir að þeir væru til í að ganga þennan veg. Þessi þróun er óhjákvæmileg því ef eitthvað er mun þrengja enn frekar að tóbaksframleiðslu í heiminum, það er alveg ljóst að þessi framleiðsla yrði aldrei leyfð í dag. Það að þetta skuli vera lögleg fíkniefnaneysla, því að nikótín flokkast með fíkniefnum og það mjög sterkum — hefur verið flokkað með heróíni og kókaíni hvað fíkniefnabindingu snertir — þá er alveg ljóst að slík framleiðsla yrði ekki leyfð í dag bæði vegna nikótínsins sem fíkniefnis en ekki síður vegna mengunarinnar sem kemur af reyknum og hefur sýnt sig að vera mikill skaðvaldur. Tóbaksreykur hefur áhrif á myndun krabbameins, aðallega lungnakrabbameins en einnig fjölmargra annarra krabbameina og eins annarra sjúkdóma, reykingatengdra lungnasjúkdóma, hjartasjúkdóma og ýmissa kvilla í börnum ef reykt er yfir þeim. Því fagna ég vissulega að ferðaþjónustan og Samtök veitinga- og gistihúsaeigenda skuli nú vera með í því að vernda starfsmenn sína og vera það framsýn að vera frekar fyrr á ferðinni en seinna, því þetta er það sem koma skal.

Í sambandi við þá tregðu sem hefur verið hjá áðurnefndum starfsgreinum gagnvart frumvarpinu vil ég aðeins lýsa því að það eru margir sem hafa talið að það yrði tekjuskerðing í viðkomandi rekstri ef veitingahús, kaffihús og matsölustaðir yrðu gerð algjörlega reyklaus. Ég vil vísa til nýlegs dæmis sem er eitt af mörgum, en í minni heimabyggð á Egilsstöðum er veitingastaður, kaffihús og ölstofa, sem hefur verið rekinn þar um nokkurra ára skeið, mjög vinalegur og skemmtilegur staður, vel sóttur bæði af heimamönnum og ferðamönnum. Fyrir tæpu ári síðan urðu eigendaskipti á Kaffi Wilson. Fyrri eigandi hafði haldið svæðinu þar sem matur var framreiddur á neðri hæð hússins algjörlega reyklausu en leyfði reykingar svona til hliðar. Það fundu allir jafnt þar eins og á öðrum veitingahúsum að núgildandi lög duga ekki. Þau duga ekki vegna þess að þýðir ekkert að leyfa reykingar í einum stað í húsi, sal eða herbergi og ætla að halda öðrum reyklausum. Þetta er nákvæmlega eins og þegar átti að reyna að takmarka reykingar í flugvélunum á ákveðnu tímabili og þá mátti reykja í öðrum hluta flugvélarinnar en ekki hinum og auðvitað hélt þetta ekkert. Þetta eru engar mengunarvarnir því að reykurinn dreifir sér og þynnist bara um allt svæðið.

Fyrir tæpu ári síðan urðu þarna eigendaskipti. Fyrri eigandi hafði ekki treyst sér til þess að gera ölstofuna, sem er uppi á efri hæðinni, reyklausa því að þangað komu þeir sem voru að fylgjast m.a. með íþróttunum og það var talið að þá mundi þeim fækka sem kæmu upp á ölstofuna. Núverandi eigandi gerir húsið allt reyklaust og viti menn, hann getur ekki annað en lýst mikilli ánægju með árangurinn því ef eitthvað er þá hefur gestum frekar fjölgað en hitt. Og það sem hefur komið í ljós er að heimamenn sem vildu fylgjast með íþróttaviðburðum og fótboltakappleikjum á breiðtjaldinu voru ekki einungis reykingamenn, þangað koma núna líka einstaklingar sem ekki treystu sér áður til þess að koma og sitja í reykjarmekkinum. Reykingamennirnir halda því áfram að koma, þeir hafa ekki kvartað, ekki einn einasti, eitthvað möglað svona til að byrja með en þeir halda áfram að koma. Þeir fara út fyrir ef þeir reykja en hinir sem ekki reykja sækja þennan stað, þannig að viðskiptin hafa frekar aukist en hitt.

Ég held að þetta sé lítið dæmi um reynslu fjölmargra sem hafa farið þennan veg. Það er auðvitað gott þegar veitingahúsaeigendur gera þetta að eigin frumkvæði rétt eins og kvikmyndahúsaeigendur gerðu á sínum tíma. Það þurfti ekki lög, þetta var að þeirra frumkvæði með fullum stuðningi tóbaksvarnanefndar á þeim tíma og það bara svínvirkaði, það eru allir ánægðir. Það hefur ekki fækkað í kvikmyndahúsunum heldur fjölgað.

Annað nýlegt dæmi vil ég nefna, það er þorrablót Egilsstaða sem er alltaf haldið á bóndadag. Í ár héldum við það í íþróttahúsinu sem var gert að veislusal. Þangað komu 550 manns og reykingar voru alfarið bannaðar bæði þegar veitingar voru fram reiddar og eins á eftir þegar dansinn var stiginn. Enginn kvartaði og fólk hefur lýst mikilli ánægju yfir því að geta nú loksins verið á þorrablóti án þess að koma heim angandi af tóbaksreyk og þurfa að byrja á því að viðra fötin, fyrir utan að fólk talaði um hvað því liði vel og að það vonaðist til að svona (Forseti hringir.) yrði þetta áfram, þorrablót í íþróttahúsinu og það reyklaust.