132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[19:46]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í sjálfu sér ekki gera lítið úr viðleitni ráðuneytisins og ábyrgðaraðila til að framfylgja lögunum. En ég verð hins vegar að vísa til þess að eina könnunin sem vísað er til í frumvarpinu og hv. þingmaður nefndi áðan er frá sumrinu 2002, skömmu eftir að sú breyting sem hér um ræðir var samþykkt á Alþingi. Ef ég man rétt voru lögin samþykkt í desember 2001 eða janúar 2002. Því má ætla að nokkuð meiri reynsla sé komin á framkvæmdina nú en var vorið 2002. Síðan eru liðin nærfellt fjögur ár. Tilfinning mín sem gests á veitingastöðum er sú að reyklausu svæðin hafi miklu meira vægi í dag en þau höfðu þá. Ég held því að það hefði verið málinu til framdráttar og þeim undirbúningi sem þarf að búa að baki svona frumvarpsgerð ef einhver nýrri gögn eða athuganir væru fyrir hendi sem segðu eitthvað til um stöðuna að þessu leyti. Nú dreg ég á engan hátt í efa að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, sem ber að framfylgja slíkum lögum, hafi rekið sig á ýmis vandkvæði við að framfylgja þessum ákvæðum en þá er spurningin: Hefur eitthvað verið gert af hálfu heilbrigðisráðuneytisins til að reyna að tryggja betur framkvæmdina? Þetta hafa verið gildandi lög núna í nærfellt fjögur ár. Ég velti fyrir mér hvort þær leiðir hafi verið reyndar á einhvern hátt innan ramma gildandi laga áður en farið er út í að leggja hér til fortakslaust bann.