132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[19:48]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að sú könnun sem ég vísaði til er frá sumrinu 2002. Ég er ekki með nýrri tölur í kollinum en ég get fullvissað þingmanninn um það að eftir viðtölum okkar í ráðuneytinu að dæma hefur ástandið ekki batnað mikið. Það sem aftur á móti hefur breyst, og segja má að það sé í rauninni hluti af viðbrögðum ráðuneytisins við óskum heilbrigðiseftirlitsins, er annars vegar það að við höfum unnið að lagasetningu til að breyta því ástandi sem nú er, vegna þess að heilbrigðiseftirlitið og sveitarfélögin hafa mörg hreinlega kallað eftir mjög skýrum línum í þessu sambandi því þau hafa átt í erfiðleikum með að fylgja banninu eftir. Og hins vegar má geta þess líka að undirstofnun ráðuneytisins, Lýðheilsustöð, hefur farið þá jákvæðu leið á vissan hátt að auglýsa eða vera með lista á heimasíðu sinni yfir þá veitinga- og skemmtistaði sem kjósa að vera alfarið reyklausir og hefur í rauninni jafnframt farið út í kynningarátak til þess að reyna að hygla eða halda á lofti nöfnum þeirra veitinga- og skemmistaða sem kjósa að vera reyklausir. Hefur það átak skilað einhverju, held ég, og líka bara viðhorfsbreytingin sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu því að æ fleiri kjósa að fara á reyklausa skemmti- og veitingastaði. En eins og fram hefur komið í máli fyrri ræðumanna hefur það samt verið viðhorf Samtaka ferðaþjónustunnar að setja verði lög um þetta því þau vilja að það sama gildi um alla og þeim yrði stuðningur að því að lögin væru skýr. Við því erum við að bregðast með þessu frumvarpi.