132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[20:41]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir. Ég styð frumvarpið heils hugar. Hvers vegna? Kjarni málsins er sá að þetta er heilbrigðismál. Það hefur margoft komið fram að óbeinar reykingar eru skaðlegar. Ef ég tek hér upp úr fylgiskjali, greinargerð Lýðheilsustöðvar, þá segir þar, virðulegi forseti:

Þekktar afleiðingar óbeinna reykinga. Fullorðnir: Lungnakrabbamein. Hjarta- og æðasjúkdómar. Brjóstverkir og fleiri einkenni hjartasjúkdóma versna. Astmaköst hjá þeim sem hafa astma. Berkjubólga versnar. Heilablóðfall. Fósturvöxtur minni en ella (lítil fæðingarþyngd). Fæðing fyrir tímann.

Börn: Vöggudauði. Eyrnabólgur. Sýkingar í öndunarfærum. Astmaköst hjá þeim sem hafa astma. Þróun astma hjá einkennalausum.

Aðrar afleiðingar óbeinna reykinga: Öndunarerfiðleikar. Ógleði. Óþægindi í öndunarfærum. Höfuðverkur. Hósti. Óþægindi í augum.

Virðulegi forseti. Fram hefur komið hjá þeim þjóðum sem hafa skert tóbaksheimildir að hjá veitingamönnum hafa tekjur ekki minnkað.

Ég veit ekki hvort það er ákveðið þroskamerki, virðulegi forseti, að sá er hér stendur er eini þingmaðurinn af karlkyni sem hefur mælt með þessu frumvarpi fyrir utan hæstv. heilbrigðisráðherra.

Virðulegri forseti. Ég hef lokið máli mínu.