132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:07]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna máls sem hefur verið nokkuð í fréttum að undanförnu, nefnilega að til standi af hálfu fjármálaráðuneytisins að breyta reglugerð þannig að söluúrval í Fríhöfninni í Leifsstöð verði takmarkað. Ég varð að láta segja mér þetta þremur sinnum áður en ég tryði, einfaldlega vegna þess að ég taldi að náðst hefði þokkaleg sátt um það með hvaða hætti Flugstöð Leifs Eiríkssonar yrði rekin — þar sem væri í bland ríkisrekstur og í stækkuninni hafa síðan einkaaðilar verið að koma inn — um það hélt ég að væri sátt.

Það skiptir einnig máli, herra forseti, að stjórn flugstöðvarinnar hefur tekið ákvörðun um mikla stækkun upp á 5 milljarða kr. og fyrir þeirri ákvörðun liggja ákveðnar forsendur, forsendur um tekjur til stofnunarinnar. Þess vegna hlýtur slíkt að vera í uppnámi, ef rétt reynist, ef breyta á þeim forsendum eins og fréttir hafa verið um enda er komuverslunin einn aðaltekjustofn þessarar ágætu stofnunar.

Það hefur komið fram að ef þessar forsendur breytast kunna 50–60 störf í flugstöðinni að vera í uppnámi. Ef maður skoðar það sem er að gerast, m.a. í samdrætti varnarliðsins, þá hafa Suðurnesjabúar einmitt horft til þess að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið að skapa og mun vonandi áfram skapa fleiri störf. Þess vegna hefur þessi frétt komið afskaplega illa við menn og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver flugufótur er fyrir henni.

Það er líka rétt að minna á það að þegar Norðmenn tóku ekki alls fyrir löngu upp sambærilega komuverslun og við höfum urðu menn varir við það að verslun Norðmanna í flughöfnum, t.d. í Bretlandi, datt niður.