132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:14]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, ein spurning: Hvor aðilinn mundi eiga fyrir sólarlandaferð vegna skattstefnu ríkisstjórnarinnar á árinu 2007, sá sem hefur 100 þús. kr. í kaup eða sá sem hefur milljón kr. í kaup? Báðir borga sömu skattprósentu, síðan kemur persónuafslátturinn í mínus. Hvor skyldi nú eiga fyrir sólarlandaferð, hæstv. ráðherra?

Það er maðurinn með milljónirnar sem hefur hagnast um 40 þús. kr. á skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Þá erum við ekki að tala um afnám hátekjuskattsins, hæstv. ráðherra, sem færði hátekjufólkinu enn viðbót.

Mér finnst ekki þurfa að rífast mikið um útfærsluna á skattstefnu ríkisstjórnarinnar, hún liggur nokkuð ljós fyrir. Eitt prósent af 100 þúsund er eitt þúsund krónur og eitt prósent af milljón er tíu þúsund krónur, hæstv. ráðherra. Þetta hljóta allir að skilja alveg sama hversu lengi ráðherrann reiknar aftur á bak og áfram og hvort sem hann miðar við kaupgjald á árinu 1994 eða kaupgjald í dag. Hann notar sömu krónutöluna.