132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að ræða ítarlega skattbreytingarnar og hvað þar liggur til grundvallar en það er líka mikilvægt að ræða málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Fríhafnarverslunarinnar. Vil ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka það mál upp. Um er að ræða stóran vinnustað og atvinna margra er í húfi og þar skapast miklir fjármunir fyrir ríkissjóð. Ég vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að huga að framtíð verslunarinnar með þrjá þætti í huga.

1. Huga þarf að hagsmunum neytenda. Í versluninni, eins og hún er nú, er mjög mikið vöruúrval. Hún er prýðilega rekin að því leyti.

2. Ríkissjóður hefur geysilegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta og að því þarf einnig að huga.

3. Huga þarf að starfsöryggi og hagsmunum starfsfólks. Ég legg áherslu á að allir þessir þættir verði teknir til skoðunar ef um einhverjar breytingar verður að ræða á því fyrirkomulagi sem er við lýði í Fríhafnarversluninni.