132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:17]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Bæði þau mál sem hér hefur borið á góma í umræðum um störf þingsins eru þess virði að þeim verði gefinn nokkur gaumur hér á næstu dögum. Þeim verður ekki gerð skil með fullnægjandi hætti á þeim stutta tíma sem við höfum til ráðstöfunar hér.

Hvað varðar skattamálin vildi ég koma því á framfæri að sú umræða sem átt hefur sér stað, og hefur ekki síst verið haldið uppi af hálfu talsmanna Samfylkingarinnar, eins og t.d. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, er afar villandi. Ef við horfum á skattkerfi okkar felst í því kerfi að með auknum tekjum verður aukin skattbyrði. Kerfið okkar er þannig upp byggt. Það er svokallað prógressíft kerfi sem gerir ráð fyrir því að skatthlutfall sé hið sama en hins vegar sé persónuafsláttur tiltölulega hár, sá hæsti sem um getur í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við. Persónuafsláttur er hærri hér en nokkurs staðar annars staðar sem ég þekki til.

En þetta gerir það að verkum að því hærri tekjur sem menn hafa umfram þessi skattleysismörk þeim mun hærra hlutfall borga þeir í skatt. Sá sem er með 150 þús. kr. í tekjur á mánuði borgar u.þ.b. 16% af sínum tekjum í tekjuskatt og útsvar. Sá sem er með 250 þús. kr., 100 þús. kr. meira, borgar 23% í skatt. Hann hefur hærri tekjur en persónufrádrátturinn er sá sami og því borgar hann hærra hlutfall. Því fleiri sem hafa hærri tekjur þeim mun hærra hlutfall er greitt í skatt, en er það vandamálið? Er það vandamál, hæstv. forseti? Er það vandamál að tekjur í þjóðfélaginu hafa aukist svo mikið að meiri skatttekjur skila sér til ríkissjóðs? Er það vandamálið? Er það hið stóra vandamál?

Það skiptir mestu máli að kaupmáttur tekna eftir skatt hefur stóraukist á undanförnum árum og á því verður framhald.