132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:19]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki hægt að koma hreint fram í þessum málum? Hann ber því við að það sé ekki hægt að sjá launaþróun fram í tímann, en menn geta séð hagvöxt mörg ár fram í tímann. Ef einhverjar viðkvæmar upplýsingar eru á ferð þá bara stoppar allt.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að ég bað ekkert um að sjá launaþróun. Ég bað um að reiknað yrði út frá þeim launum sem voru greidd í landinu árið 2003. Hvers vegna er það ekki hægt? Það er vegna þess að það er óþægilegt.

Í öðru lagi vil ég benda hæstv. ráðherra á að ef hann ætlar að koma þessari umræðu á eitthvert vitrænt plan þá á hann að setja dæmið þannig upp að hægt sé að skilja hvað verið er að gera. Nema það sé ætlun hans að koma ekki hreint fram, sveipa staðreyndir þoku og fela raunverulegar gerðir ríkisstjórnarinnar. Tökum t.d. dæmi eitt, sem ég spurði hæstv. ráðherra út í, og hann svaraði með orðinu bæði — það væru bæði rauntölur og bæði eitthvað annað. Ég veit í rauninni ekki hvað hann var að fara. En dæmið snýst um það hver skattbyrðin var á launum sem voru 120 þús. kr. árið 1994, hvort það sé sambærilegt að bera það saman við sömu krónutölu árið 2006. Ég segi nei. Það er miklu nær að bera það saman út frá launaþróuninni sem hefur orðið í landinu. Miklu nær væri fyrir hæstv. ráðherra að bera það saman við 240 þúsund kr. Á því dæmi sést að skattbyrðin hefur aukist, þ.e. ef tekið er mið af launaþróun í landinu.

Hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á tekjuskattinn, að það væri eitthvert vandamál að hann hefði aukist. Ég sé að tíma mínum er lokið og ætla ekki út fyrir þau mörk. Ég vil einungis benda, frú forseti, hv. þingmanni á að kynna sér tryggingargjaldið sem hefur verið hækkað nær tvöfalt.