132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:30]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Í tæpa tvo áratugi hefur á Alþingi af og til verið rætt um íslenska kaupskipaútgerð. Fyrst beindist orðræðan að hinni hörðu samkeppni evrópskra kaupskipaútgerða við eigendur kaupskipa undir svokölluðum þægindafánum og mönnuð voru ódýru vinnuafli fjarlægra Austurlanda. Norðurlandaþjóðirnar, ekki Ísland, brugðust við þessum vanda, tryggðu sínum kaupskipaútgerðum rekstrarlegt umhverfi, m.a. með skattaívilnunum, sem leiddi til að kaupskipastóll þeirra sem hafði minnkað stórkostlega tók nú stakkaskiptum, óx og dafnaði. En hvers vegna var þessi leið farin? Augljóst er að margfeldisáhrif öflugrar kaupskipaútgerðar á starfsemi og atvinnu í landi, þ.e. aukning fjölda skipa á skipaskrá, býr til viðbótarstörf í landi og skilar þar með auknum heildartekjum, viðheldur einnig bættri verkkunnáttu á sviði sjóflutninga og eflir atvinnumöguleika farmanna.

Hæstv. fjármálaráðherra. Óskabarn þjóðarinnar, Eimskip, hefur nú ákveðið að flytja sjóflutningastarfsemi sína til Færeyja líkt og Samskip og Olíudreifing hafa gert. Færeyingar hafa breytt skattalegu rekstrarumhverfi kaupskipaútgerða sinna, erlendra sem innlendra, til sama vegar og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum en á Íslandi. Það er umhugsunarefni fyrir Íslendinga þegar svo er komið að athafnaleysi íslenskra stjórnvalda hefur leitt til þess að áhafnarkostnaður kaupskipa í reglubundnum siglingum milli Evrópu og Íslands, svo og olíuflutningaskip sem dreifir olíu á stærri hafnir landsins, er niðurgreiddur af Færeyingum sem þrátt fyrir það hafa um 200 millj. í tekjur af íslenskri kaupskipaútgerð. Allt stefnir í að við glötum þekkingu og reynslu íslenskrar farmannastéttar. Áhugi ungra manna á menntun til farmennsku leggst af, við verðum öðrum þjóðum háð með flutninga að og frá landinu og íslenska 200 sjómílna lögsagan varin með skipum undir þægindafánum mönnuð erlendum sjómönnum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi umræða fer hér fram eins og ég gat um í upphafi máls míns. Hinn 13. apríl 2005 var utandagskrárumræða um sama efni. Þá var til svara fyrrverandi fjármálaráðherra, hæstv. núverandi utanríkisráðherra Geir H. Haarde. Með leyfi forseta vildi ég aðeins vitna til þess lokasvars sem hann gaf þá við fyrirspurnum mínum um þetta efni.

Hann sagði þá, með leyfi forseta:

„Það þarf að hafa það í huga vegna ákvæða EES-samningsins að það er ekki unnt að einangra ríkisaðstoð við innlenda farmenn eða innlendar útgerðir eingöngu. Því er ekki borðleggjandi að íslensk, alþjóðleg kaupskipaskrá með samþykktu ríkisaðstoðarkerfi muni bæta hag íslenskra farmanna. Burt séð frá því er óvíst hvaða áhrif stofnun slíkrar kaupskipaskrár kunni að hafa á atvinnugreinarnar þar sem mikil samkeppni er innan Evrópu og víðar um að fá kaupskip á þær skrár sem fyrir hendi eru.“

Það er mjög sérstakt að þetta svar skuli hafa verið gefið við fyrirspurn minni í ljósi þess sem Evrópusambandið hefur lagt til. Það leggur til að stuðlað sé að kaupskipastól til að keppa við þessi þægindafánaskip til að tryggja örugga hagkvæma flutninga til að hvetja til skráningar eða endurskráningar á skipaskrá aðildarríkja ESB og EFTA og til að viðhalda og bæta verkkunnáttu og þekkingu á sviði sjóflutninga til að efla atvinnumöguleika evrópskra sjómanna. Síðast en ekki síst er sú ógn að ef til ófriðar kæmi gæti álfan orðið varnarlaus um aðdrætti í einu vetfangi.

Þetta er ekkert smámál. Það er líka til umhugsunar um það sem ég sagði hér áðan um niðurgreiðslur Færeyinga á sjóflutningum að og frá Íslandi að ekki fyrir löngu var frétt um að Norðmenn ætluðu að taka upp strandferðir og gera út skip frá Akureyri. Að sjálfsögðu niðurgreitt af Norðmönnum. Ég beini því eftirfarandi spurningu til hæstv. fjármálaráðherra: Hefur ráðherra átt viðræður við forsvarsmenn skipafélaganna og reynt að leiða þetta mál til lykta? Eða erum við Íslendingar, eyþjóð í Norður-Atlantshafi, orðin þannig á vegi stödd að íslensk kaupskipaútgerð skiptir okkur ekki nokkru máli?