132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:41]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram hafa Samtök atvinnulífsins, stéttarfélög sjómanna og fjölmargir aðrir lýst þungum áhyggjum af samkeppnishæfni íslenskra skipaútgerða, og hafa gert lengi eins og hér hefur komið fram. Þeir hafa gert þetta lengi. Og það hafa fjármálaráðherrar líka gert, að þvælast fyrir málinu. Auðvitað ber þar hæst síðasta fjármálaráðherra, hæstv. núverandi utanríkisráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins Geir H. Haarde. Hvað umfang erum við að tala um? Jú, það er talað um að í lok síðasta árs hafi þrjú íslensk skipafélög og dótturfélög þeirra verið með rúmlega 60 flutningaskip í rekstri. Ef skattalegt umdæmi og rekstrarlegt umhverfi þeirra væri þannig að hægt væri að skrá þau hér á Íslandi er talið að ríkissjóður gæti fengið um 200 millj. kr. í kassann sem hann hefur ekki af þessum útgerðum í dag.

Það er rétt að vekja athygli hæstv. fjármálaráðherra á því, virðulegi forseti, að sveitarfélögin tapa engu á því. Þau eru búin að tapa þessum tekjum vegna þess að þetta er farið úr landi. Vegna aðgerðaleysis og þess að ekkert hefur verið gert. Það er líka dálítið kyndugt að olíudreifing til byggða landsins, hér með ströndinni, sé núna niðurgreidd af Færeyingum. Það sem ríkisstjórnin vill ekki gera fyrir þegna þessa lands eru Færeyingar í raun að gera fyrir okkur. Þökk sé þeim. En verði fjármálaráðherra að góðu að njóta ríkisstyrkja frá Færeyjum.

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvað þetta hefur þvælst fyrir mönnum og þess vegna er gott að núna er búið að reka hæstv. fjármálaráðherra til verka í þessu sambandi. En ég minni hæstv. fjármálaráðherra á að ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins hefur lagt áherslu á að kaupskipum í íslenskri skipaskrá verði fjölgað með því að lagfæra íslenskt stofnana-, laga- og regluumhverfi (Forseti hringir.) þannig að Ísland verði samkeppnishæft (Forseti hringir.) við skráningu í alþjóðaskipasiglingum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að (Forseti hringir.) gefa hæstv. fjármálaráðherra þessa ályktun svo að hann geti sagt okkur á eftir hvað verður gert með þetta.

(Forseti (BÁ): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að virða ræðutímann sem er takmarkaður í þessari umræðu.)