132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:43]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Ein af meginlínum hins volduga Evrópusambands er að halda ekki uppi ríkisstyrkjum. Er það rökstutt með því að það eigi að jafna samkeppni. Þó háttar svo til að fyrir ekki svo löngu ákvað Evrópusambandið sjálft að heimila ríkisstyrki til kaupskipaútgerða. Hvaða rök skyldu nú liggja þar að baki, gegn þeirri meginstefnu sem Evrópusambandið heldur uppi? Rökin voru afskaplega einföld, Evrópa var að missa allan kaupskipaflotann sinn út úr Evrópu. Skipin voru skráð í Asíu, Suður-Ameríku eða annars staðar í heiminum. Í Brussel mátu menn það svo að uppi væri spurningin um öryggi Evrópu, vegna siglinga, um sjálfstæði Evrópu og ekki síst þekkingu og kunnáttu sem fylgir því að halda uppi öflugri sjómannastétt og þar af leiðandi útgerð.

Nú háttar svo til að af öllum þjóðum eru vinir okkar í austri, Færeyingar, að slá okkur við. Og hvernig gera þeir það? Með því að endurgreiða hluta af þeim skatti sem sjómenn greiða inn í færeyska ríkiskassann, að endurgreiða hann til útgerðar og skapa þar með umhverfi sem er betra en það umhverfi sem við bjóðum upp á hér. Af sjálfu leiðir að hið opinbera fær engar tekjur af þessum íslensku sjómönnum. Skattstofninn af þeim sjómönnum íslenskum sem eru skráðir á skip í Færeyjum mun nema um 1 milljarði króna. Þess vegna eru þær tölur sem hér hafa verið nefndar, um 200 millj., peningur sem við erum hreinlega að missa af.

Það hlýtur, herra forseti, að vera einnar messu virði og ég fagna því að hæstv. ráðherra ætli sér að leiða saman fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og ASÍ sem eru sammála um að við þurfum að grípa til aðgerða til að halda farmskipunum, til að halda uppi öflugri sjómannastétt (Forseti hringir.) og skapa tekjur í ríkissjóð.