132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að taka þetta mikilvæga mál til umræðu á þinginu. Þetta er stórmál. Eimskipafélagið, óskabarn þjóðarinnar, er á förum til Færeyja. Reyndar má segja að barnið hafi áður verið borið út í tvennum skilningi. Nýir eigendur hafa afsalað sér því með því að segjast ekki lengur vera skipafélag, heldur einvörðungu fjárfestingarfélag. Einnig í hinu tillitinu að Eimskipafélagið hefur skráð mörg skipa sinna á erlendri grundu.

Um hvað snýst þetta mál? Það snýst um það að ná niður tilkostnaði við mannahald, ná niður launakostnaði. Skipaútgerðir í heiminum hafa farið tvær leiðir í þessu efni, annars vegar að lækka launin með því að ráða fólk frá fátækum ríkjum. Sumir hafa gengið mjög langt í þessu efni. Norðmenn gerðu eigin þjóðfána að hentifána og hafa flutt sjómannaskólana sína til Filippseyja og víðar til annarra landa þar sem laun eru lág og kjörin rýr. Þetta er slæm leið. Íslensku sjómannasamtökunum hefur auðnast að halda viðurkenningu á því að íslenskir kjarasamningar skuli virtir. Það er mjög mikilvægt að þetta gangi eftir.

Þá er það hin leiðin, sú leið sem t.d. Svíar hafa farið, að koma til móts við skipaútgerðirnar með því að búa þeim sértækar skattaívilnanir. Það er leið sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið tilbúin að ræða og margoft hreyft því máli á Alþingi að slíkt verði skoðað. Við viljum leggja okkar af mörkum til þess að nást megi um það þverpólitísk samstaða að halda skipaútgerðum hér innan lands. (Forseti hringir.) Þetta er stórmál og mjög mikilvægt að (Forseti hringir.) það verði til lykta leitt á farsælan hátt.