132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:56]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég heyrði að hv. málshefjandi talaði um tómlæti formanns Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og það var ekki annað að heyra en að hæstv. fjármálaráðherra væri ekkert mjög ákafur í að koma þessu máli í höfn. Hann bar því við hvort þessar breyttu skattareglur hefðu yfirleitt einhver áhrif. Þá vonast ég bara til þess að hæstv. fjármálaráðherra líti til Færeyja og Svíþjóðar og sjái árangurinn.

Síðan var sagt sem svo að þetta gæti raskað einhverju samræmi skattareglna. Auðvitað hef ég skilning á því að hæstv. fjármálaráðherra vilji halda mjög í skattana sína, og helst hækka þá, því að raunin er sú að hæstv. ráðherra hefur hækkað skatta til að eiga fyrir síauknum ríkisútgjöldum. Þau hafa aukist um 120 milljarða síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Síðast en ekki síst benti hann á hagsmunasamtök. Hann er vanur því úr fyrra starfi að líta mjög til þess hvað hagsmunasamtök segja um hin og þessi mál, en nú vonast ég til þess að hæstv. ráðherra snúi við blaðinu og líti til almannahagsmuna í þessu máli.

Hverjir eru þeir? Það hefur verið nefnt, jú, störf. En það er annað sem skiptir ekki síður máli og það er að líta til þess að hér tapast þekking, og þekking sjómanna skiptir verulega miklu máli upp á mengun hafsins, að við séum ekki með óreynda menn á lágum launum að sigla með hættulegan varning um höfin hér, við strendur landsins. Það á að líta til þess. Þetta er mengunarmál og eitt stærsta mengunarmál sem hægt væri að taka á með litlum tilkostnaði. Menn segja að þetta muni jafnvel raska einhverju skattajafnvægi en ég bendi hæstv. ráðherra enn og aftur á að ekki eru teknir neinir skattar af engu. (Forseti hringir.) Þetta mál höfum við í Frjálslynda flokknum flutt hér áður, (Forseti hringir.) við viljum taka á þessu máli hvað varðar stöðu farskipa (Forseti hringir.) og ég vona svo sannarlega, herra forseti, að ráðherra sýni þessu ekki sama tómlæti og forverar hans.