132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:59]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og undirtektir þingmanna við þessu máli. Það er ljóst að hér er um geysilega mikla almenna hagsmuni að ræða og það er alveg ljóst að í þeirri yfirlýsingu sem hefur komið frá Eimskipafélaginu mun það flytja starfsemi sína til Færeyja verði ekki neitt annað gert í málinu.

Aðeins út af skattalegri meðferð sem við höfum hér verið að ræða um svo að menn átti sig betur á henni. Í fyrsta lagi hvað snýr að Færeyingum, þeir taka 35% skatt af sjómönnum, taka sjálfir 7% í ríkiskassann en 28% fara til útgerðarinnar aftur til að greiða niður launakostnað. Það er rétt að halda því til haga svo að menn átti sig á því um hvað málið snýst. Eins og hér kom fram hjá einum ræðumanni réttilega rennur þetta ekki til sjómannanna sjálfra. Svo það sem ég kom aftur fram með varðandi Samtök atvinnulífsins og samtök sjómanna sem rituðu bréf árið 2004 til stjórnvalda um að eitthvað yrði gert í málinu, þá er það rétt. Ég tel að með undirritun Samtaka atvinnulífsins varðandi skattalega meðferð kaupskipanna lýsi þau því yfir að þau séu ekki að stíga þá leið að byrja fyrst á þessari skattaívilnun og ætla svo að fara yfir í aðrar starfsgreinar. Ég lít svo á, eins og hér kemur fram, að þetta sé auðvitað grafalvarlegt mál.

Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans og ég vonast til þess að sá fundur sem fram undan er með fulltrúum útgerða muni leiða til þess að óskabarn þjóðarinnar fari ekki úr landi, heldur muni halda áfram starfsemi sinni hér og það muni jafnframt leiða þá til þess að aðrar útgerðir komi aftur.

Það er náttúrlega hlálegt að hugsa til þess að olíufélögin (Forseti hringir.) skuli jafnframt vera að fiska í þessu grugguga vatni (Forseti hringir.) skattaívilnana í Færeyjum.