132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Leyfi til olíuleitar.

154. mál
[13:07]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hugsanlegt er að olíu- og gaslindir sé að finna á landgrunni Íslands. Koma þrjú svæði helst til greina, Jan Mayen svæðið, Hatton-Rockall svæðið og landgrunnið út af Norðurlandi. Af þessum svæðum er Jan Mayen svæðið álitlegast til olíuleitar við núverandi aðstæður og virðist rétt að gera ráð fyrir því að aðstæður til að bjóða fram leyfi til rannsóknar og vinnslu kolvetnis þar geti skapast innan fárra ára. Almennur rammi um leit að olíu og jarðgasi á landgrunninu og vinnslu olíu- og jarðgaslinda var settur með lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001. Lögin gera ráð fyrir tvenns konar leyfum, annars vegar eru veitt leyfi til leitar með mælingum og sýnatöku af hafsbotni. Heimilt er að gefa út fleiri en eitt leitarleyfi á sama svæði en boranir eru ekki leyfðar.

Leitarleyfi voru útfærð nánar í reglugerð iðnaðarráðherra, nr. 553/2001, og hófst leitin sama ár með útgáfu leitarleyfis á Jan Mayen svæðinu til norska olíuleitarfyrirtækisins InSeis. Hins vegar gera lögin ráð fyrir að veitt verði leyfi til rannsókna og vinnslu sem feli í sér einkarétt til rannsókna og vinnslu á tilteknum afmörkuðum svæðum. Enn hafa engin slík leyfi verið veitt og áður en til þess getur komið þarf að skilgreina leyfin nánar og ljúka ýmsum öðrum undirbúningi.

Árið 2004 lét iðnaðarráðuneytið taka saman yfirlit um þann undirbúning sem fram þarf að fara til þess að unnt sé að veita rannsókna- og vinnsluleyfi á Jan Mayen svæðinu. Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir lagði ég sem iðnaðarráðherra áætlun fyrir ríkisstjórnina um að ljúka undirbúningnum á tveimur árum. Í apríl 2005 samþykkti ríkisstjórnin að veita fé til verkefnisins og hófst hann í framhaldi af því. Undirbúningsvinnan fer fram á vegum iðnaðarráðuneytisins en samráð er haft við önnur ráðuneyti og einstakir verkþættir unnir af undirstofnunum þeirra.

Undirbúningurinn og upplýsingaöflunin sem fram þarf að fara áður en ákvarðanir eru teknar um leyfisveitingar fela m.a. í sér eftirfarandi atriði: a) að fullvinna drög að rannsókna- og vinnsluleyfi, b) að endurskoða og breyta lögum og reglum sem snúa að borunum og vinnslu kolvetnis á landgrunninu, sérstaklega ef hugað er að skattlagningu tekna og gjaldtöku af starfseminni, framkvæmd umhverfismats, fyrirkomulagi umhverfis- og vinnuöryggismála og fyrirkomulagi stjórnsýslu, bæði með tilliti til hlutverks Orkustofnunar og gagnvart öðrum stjórnvöldum, c) að ná samkomulagi við Noreg um framkvæmd samkomulagsins frá 1981 um olíuvinnslu á Jan Mayen svæðinu, og d) að afla ýmissa grunnupplýsinga, svo sem um eðli og hugsanlegt umfang rannsóknaborana og olíuvinnslu í kjölfar leyfisveitinga, líkleg áhrif slíkrar starfsemi á íslenskan efnahag og atvinnulíf, leiðir til að tryggja sem mesta hlutdeild íslenskra aðila í henni og meta hvaða lágmarkskröfur skuli gera um efnahagslegan og annan ávinning samfélagsins af starfseminni ef heimila ætti vinnslu innan fárra ára fremur en að láta nýtingu hugsanlegra auðlinda bíða betri tíma.

Einnig þarf að afla grunnupplýsinga um náttúrufar á Jan Mayen svæðinu með áherslu á viðkvæm svæði og lífverur og leiðir til að draga úr mengun og öðrum óæskilegum umhverfisáhrifum og truflunum á annarri starfsemi, t.d. fiskveiðum. Áætlunin sem samþykkt var af ríkisstjórninni gerir ráð fyrir undirbúningsvinnu og að undirbúningnum verði lokið í ársbyrjun 2007. Sjálft leyfisveitingaferlið mun taka 1–2 ár, og verði tekin ákvörðun um að veita leyfi árið 2007 verður væntanlega hægt að gefa út leyfi árið 2008 eða 2009.

Mig langar að lokum, hæstv. forseti, aðeins að koma inn á það samkomulag sem ég nefndi í máli mínu, en það samkomulag sem gert var við Noreg um landgrunnssvæðið milli Íslands og Jan Mayen árið 1981 tryggir Íslandi lögsögu yfir landgrunninu, fullar 200 sjómílur frá landi í átt að Jan Mayen og fjórðungshlutdeild í leyfum til olíuvinnslu sem Noregur kann að veita á um 33.000 ferkílómetra svæði sínu, þ.e. sín megin lögsögumarkanna. Á móti veitir Ísland Noregi hliðstæðan rétt á um 13.000 ferkílómetra svæði í íslenskri lögsögu.