132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Nýting vatnsafls og jarðvarma.

458. mál
[13:21]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að mér finnst mjög leitt ef hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur. En á árinu 1999 hófst að frumkvæði ríkisstjórnarinnar vinna við gerð svokallaðrar rammaáætlunar um virkjanir. Hún er yfirlitsáætlun um nýtingu hugsanlegra virkjunarkosta, mat á hagkvæmni þeirra og umhverfis- og samfélagsáhrifum er þeir kunna að valda. 1. áfanga áætlunarinnar lauk í árslok 2003 og vinna við 2. áfanga hófst á síðasta ári. Vinna við þetta verkefni er á starfsáætlun ríkisstjórnarinnar og fjármagn hefur verið tryggt til verkefnisins næstu árin.

Að mati margra aðila er vel til þekkja er hér um að ræða einstakt verkefni á alþjóðavísu og hefur vakið nokkra athygli erlendis. Viðtökur við 1. áfanga áætlunarinnar hafa verið mjög jákvæðar og enginn vafi er á að sá samanburður virkjunarkosta er niðurstöður rammaáætlunar veitir okkur gefur okkur gleggri sýn á líklegum virkjunarkostum í næstu framtíð. Þá hefur við gerð rammaáætlunar myndast mikilvægt gagnasafn um rannsóknir og náttúrufarsaðstæður virkjunarkosta sem kemur að miklu gagni þegar ráðist er í frekari rannsóknir eða gerð skipulagsáætlana á viðkomandi svæðum.

Vinna við 2. áfanga rammaáætlunarinnar felst einkum í eftirfarandi meginþáttum: Í fyrsta lagi á rannsóknum á nokkrum nýjum virkjunarkostum sem eru lítt rannsakaðir enn þá auk nokkurra virkjunarkosta sem tilgreindir eru í 1. áfanga en hafa lítið verið rannsakaðir. Í öðru lagi að bæta mat á jarðhitavirkjunum, bæði með því að fjölga kostum miðað við 1. áfanga og bæta aðferðir til matsins. Í þriðja lagi að endurskoða aðferðir við mat á landslagi og í fjórða lagi að kanna flokkun og mat smávirkjana.

Fyrsta verkefnið, rannsóknir á nokkrum nýjum virkjunarkostum og bætt mat á virkjunarkostum, felst einkum í því að skoða virkjunarkosti er lagðir voru til hliðar í 1. áfanga auk þess sem nýtt mat verður lagt á virkjunarkosti úr 1. áfanga ef nýjar upplýsingar eða rannsóknir liggja fyrir um viðkomandi kosti. Við annað verkefnið, bætt mat á jarðhitavirkjunum, hefur verkefnisstjórn sett á laggirnar tvo stýrihópa sér til aðstoðar við að þróa aðferðir. Annar þeirra vinnur að því að móta aðferðir til að meta þætti eins og vinnslugetu annars vegar og almenn náttúrufarsgildi sem koma til með að byggjast bæði á jarðfræðilegum og líffræðilegum þáttum auk landslags. Gagnaöflun hefur farið fram frá árinu 2004 og snýst um venjubundnar rannsóknir til að átta sig á meginjarðfræðilegum einkennum svæðanna og til að afmarka möguleg vinnslusvæði. Safnað hefur verið upplýsingum um örverur í hverum og um almennt náttúrufar, einkum gróðurfar. Við þriðja verkefnið, endurskoðun aðferða við mat á landslagi, hefur verkefnisstjórn sett á laggirnar sérstakan landslagshóp sem hefur hafið störf og mun skila tillögum um hugsanlegar rannsóknir í vetur. Fjórða verkefnið varðar flokkun á mat smávirkjana. Gera má ráð fyrir að aukinn áhugi verði á byggingu smávirkjana á vegum einstaklinga, t.d. bænda, í náinni framtíð eins og gerst hefur víða erlendis. Ekki er talið mögulegt að reyna að kortleggja þá möguleika líkt og fyrir stærri virkjanir í 1. áfanga heldur hefur verið lögð áhersla á almennar forsendur, annars vegar nýtt stafrænt afrennsliskort og hins vegar flokkun vatnsfallagerða þannig að betur megi átta sig á mögulegu notagildi þeirra í víðum skilningi. Stefnt er að því að gefa út áfangaskýrslu um 2. áfanga rammaáætlunarinnar í byrjun árs 2007, þ.e. eftir ár, og samkvæmt áætluninni mun þeim áfanga ljúka á árinu 2009.