132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Nýting vatnsafls og jarðvarma.

458. mál
[13:27]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Frú forseti. Ég þakka svör ráðherra. Það kemur í ljós sem menn ekki vissu áður að það er eitthvað í gangi einhvers staðar. Einhver verkefnisstjórn er að útdeila verkefnum og er búin að skipta einhverju niður. Ég vil hins vegar bæta við spurningu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur og spyrja hver kostnaðaráætlun muni vera í þetta verkefni. Því hún sýnir eiginlega betur en þessi niðurdeiling verkefna hvaða hugur fylgir máli. Það er rétt að vekja athygli á að þessi áfangaskipting í rammaáætluninni er villandi orð. Það er auðvitað ekki svo að það sé einhver 1. áfangi og svo sé rammaáætlunin ekki búin fyrr en komnir eru tveir, eða þrír eða fjórir. 1. áfangi stendur fullkomlega fyrir sínu. Gallinn á þessu máli öllu er sá að ráðherrann sem skipuleggur það vill ekkert mark á því taka og ætlar ekki að gefa því neitt lagagildi. Talar hér um að þetta komi að gagni við frekari rannsóknir og ákvarðanir en ætlar ekkert mark á (Forseti hringir.) því að taka sem gert er annars staðar í heiminum þar sem svona rammaáætlanir eru (Forseti hringir.) iðkaðar, m.a. í Noregi.