132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Íslenskur skinnaiðnaður hefur verið blómleg atvinnugrein lengi bæði á Akureyri og Sauðárkróki og má minnast glæsilegra tíma hjá Sambandinu á Akureyri hér á árum áður en því miður fór Sambandið eins og það fór en aðrir tóku við þessari starfsemi. Fyrir nokkrum árum störfuðu allt að 100 manns við þessa starfsemi á Akureyri. Núna á þessum tímapunkti eru rétt um 15 manns í vinnu og starfsemin er að leggjast af. Fyrirtækið sem starfrækt hefur þetta er að loka á næstunni. Því má segja að 100 manna vinnustaður sé að loka. 500 milljónir í útflutningstekjur eru að tapast. Ástæður eru aðallega þrjár.

Í fyrsta lagi. Gengisskráning íslensku krónunnar, sterk króna, en við höfum séð að gengisvísitalan hefur farið niður undir 102 stig. Reikna má út, virðulegi forseti, að hefði gengisvísitalan verið á bilinu 120 til 125 stig á síðasta ári, eins og stundum hefur verið spáð á Alþingi af fjármálaráðherra, t.d. í fjárlögum, þá hefði ekki verið taprekstur á þessari starfsemi.

Í öðru lagi hefur verið nefndur til aukinn kostnaður, m.a. raforkukostnaður.

Í þriðja lagi, breytingar á erlendum mörkuðum sem m.a. eru vegna erfiðs efnahagsástands í Þýskalandi.

Virðulegi forseti. Ég hef lengi haft miklar áhyggjur af þessari starfsemi, bæði sem Íslendingur, mér finnst bagalegt að þetta leggist af, og sem þingmaður í því kjördæmi sem aðalstarfsemin fer fram, þ.e. Norðausturkjördæmi. Þess vegna skrifaði ég hæstv. iðnaðarráðherra, sem jafnframt er forustuþingmaður okkar í Norðausturkjördæmi, svokallaður 1. þingmaður Norðausturkjördæmis, nokkuð mörg bréf um þetta þar sem óskað var eftir að þingmenn Norðausturkjördæmis kæmu saman og færu yfir stöðu mála. Því miður var það aldrei gert og hefur ekki verið gert. Aldrei neinn fundur og þingmannahópurinn ekki kallaður saman til að ræða þetta eða kallað á forsvarsmenn fyrirtækisins til skrafs og ráðagerða.

Virðulegi forseti. Skinnaiðnaður hefur ekki fengið neina opinbera fyrirgreiðslu. Til dæmis leggur þetta fyrirtæki um 100 tonn af ull inn á ári en ullarniðurgreiðslufé er í kringum 260 millj. kr. á fjárlögum og aldrei hefur fengist neitt af því.

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. iðnaðarráðherra er svohljóðandi: Hvað hefur verið gert af hálfu ráðuneytisins til að koma í veg fyrir að verkun skinna leggist af á Íslandi?

Ég vona að ég fái svar við þessu, ekki það svar að þetta sé málefni sem heyri undir landbúnaðarráðherra.