132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:41]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt. Það er mikil eftirsjá að íslenskum skinnaiðnaði, sama hvort hann var starfræktur á Sauðárkróki eða Akureyri og ljóst að fjöldi fólks hefur misst störf á undanförnum árum. Hv. þm. Kristján Möller kom ágætlega inn á það í ræðu sinni að gengi krónunnar hefur gert íslenskum útflutningsatvinnuvegum erfitt fyrir. En ekki síst var það nú þannig í þessum atvinnuvegi að markaðir hrundu. Mjög erfitt var að koma þeim afurðum sem fyrirtækið á Akureyri framleiddi á markað. Það segir sig náttúrlega sjálft að þegar aðstæður eru slíkar að erfitt er að selja þær afurðir sem framleiddar eru, er það ekki gæfulegur rekstur. En því miður er þetta staðreyndin. En ég hef þá trú og tek undir með hæstv. iðnaðarráðherra að þótt við þingmenn hefðum hist ásamt svokölluðum 1. þingmanni Norðausturkjördæmis, eins og hv. þingmaður orðaði svo smekklega, þá hefði það því miður engu breytt.