132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra hafi rangt fyrir sér þegar hún tíundar þær ástæður sem koma í svari hennar. Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra hefði getað gert æðimargt til að sjá til þess að málin hefðu ekki farið eins og raun ber vitni. Ég tel hugmyndaskort hæstv. iðnaðarráðherra og þeirra sem hún starfar nánast með og stóriðjustefnu hæstv. iðnaðarráðherra vera verulega þungar ástæður þarna. Ruðningsáhrif stóriðjunnar þekkja allir. Hágengisstefnuna þekkja allir og að hluta til er þetta líka stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar að kenna. Ég held því að bæta þurfi hér við nokkrum ástæðum og vil draga athygli þingheims að því hvernig hæstv. ráðherra kennir einhverjum svokölluðum umhverfisverndarsinnum um að hluta til í þessu máli. Það verður að leiðrétta. Auk þess sem má gagnrýna á hvern hátt hún talar um umhverfisverndarsinna. (Iðnrh.: Eruð þið ekki með spray-brúsa út um allt?) Benda má hæstv. ráðherra á að það hafa verið dýraverndarsamtök sem hafa barist gegn ómannúðlegri meðferð á loðdýrum. (Forseti hringir.) Íslenskur skinnaiðnaður hefur ekki orðið fyrir árásum frá dýraverndarsamtökum hvað þetta varðar, (Forseti hringir.) enda verið vandað til meðferðar loðdýra á Íslandi.