132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ekki er von á góðu þegar hæstv. iðnaðarráðherra stingur höfðinu í sandinn og neitar að horfast í augu við staðreyndir, sín eigin verk. Verið er að tala um samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar. Í Fréttablaðinu er fyrirsögn í dag, með leyfi forseta: „Daggjald raforku hefur hækkað um 106 prósent.“ Vegna raforkulaganna, vegna markaðsvæðingar raforkukerfisins. Hvað segir Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins? Hann segir að frá því að nýju raforkulögin tóku gildi sjáist dæmi þess að raforkuverð til fyrirtækja hafi hækkað um 20–30%. Flest fyrirtæki greiði hærra verð fyrir rafmagnið en áður. Fyrir þessa stefnu hæstv. iðnaðarráðherra blæðir m.a. skinnaiðnaðurinn á Akureyri, markaðsvæðingar- og einkavæðingarstefnu fyrir utan stóriðjustefnuna. Laxeldið í Öxarfirði og Mjóafirði eru líka fórnarlömb stefnu sem hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins ber hér fram.