132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:46]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Skinnaiðnaðurinn og loðdýraræktin eru ekki á köldum klaka og svo illa stödd vegna þess að umhverfissinnar svokallaðir, eins og hæstv. ráðherra sagði, hafi barist gegn notkun loðfelda, heldur vegna þess að stjórnvöld brugðust bændum í þessu máli.

Fyrir tveimur áratugum var bændum á Íslandi bókstaflega att út í loðdýrarækt og allt kapp lagt á að þeir hæfu hana af miklum krafti, ýmis gylliboð voru sett fram og stjórnvöld drifu það mál áfram meira og minna. Síðan harðnaði á dalnum og þá brugðust stjórnvöld bændum og skildu þá eftir á köldum klaka. Tugir íslenskra bænda fóru ákaflega illa út úr þessu ævintýri sem var að mjög miklu leyti á ábyrgð íslenskra stjórnvalda aðeins aftar í tíma. Þangað skulu menn rekja rót vandans en ekki í raðir græningja, hvorki íslenskra né erlendra. Þannig er staðan í því máli.