132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:48]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hef fylgst með þróun skinnaiðnaðar á Íslandi um langa hríð, m.a. sem fyrrverandi bæjarstjórnarmaður á Sauðárkróki og varð vitni að því þar hvernig sveitarsjóður lagði fram fjármagn ár eftir ár um langan tíma til að halda skinnaiðnaði gangandi. Það er því miður rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þetta er ein af þeim greinum þar sem vinnuaflið er of dýrt fyrir iðnaðinn. Það dapurlega er að hæstv. ráðherra hefur ekki sýnt neina viðleitni til þess að koma til móts við að byggja upp aðrar atvinnugreinar á þeim svæðum þar sem þessi iðnaður og margs konar annar iðnaður á í vök að verjast. En það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þetta er ein af þeim greinum þar sem lönd í austurvegi og annars staðar bjóða vinnuafl á lægri verði en hér heima en við (Forseti hringir.) þurfum að fá annað í staðinn út á land.