132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skinnaverkun.

474. mál
[13:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa lagt orð í belg í þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að ég verði að segja að mér fannst þau frekar döpur. Þetta var frekar söguleg skýring, skinnaiðnaður in memoriam á Íslandi, í staðinn fyrir að svara þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra um hvað ráðuneytið hefði gert til að koma í veg fyrir þetta. Þau svör fengust ekki hér, enda kannski of mikil bjartsýni hjá mér að reikna með að fá svörin vegna þess að mér er ósköp vel kunnugt um að það hefur ekkert verið gert.

Virðulegi forseti. Það er ekki sagt í niðrandi tón með svokallaðan 1. þingmann. Svokallaður 1. þingmaður er 1. þingmaður hvers kjördæmis og fyrirliði hópsins, þeirra þingmanna sem kosnir eru fyrir viðkomandi kjördæmi og leiðir hópinn til funda til þess að ræða um mál og oft erum við kölluð saman. En í þessu tilviki var það aldrei. Skyldi nú ekki hafa verið betra, virðulegi forseti, að þingmennirnir hefðu átt viðtöl við forsvarsmenn þessa fyrirtækis og skoðað hvort eitthvað væri hægt að gera í stöðunni og heyra þær skýringar?

Ég er sannfærður um að ef menn hefðu verið viljað hefði verið hægt að koma til móts í þessari stöðu. Ef við höfum þá trú að gengið muni lækka á næstu missirum, eins og hæstv. ráðherra talar um, þá er það of dýru verði keypt ef við gerum ekkert á meðan krónan er svona sterk og við töpum miklu fleiri störfum en við ætlum t.d. að búa til með álverinu fyrir austan, sem ég m.a. studdi. Það er mjög alvarlegt mál ef svo fer. Það var talað um það hér að menn gætu þurft að grípa til mótvægisaðgerða en það voru bara orð á blaði í skýrslu. Síðan hefur ekkert orðið úr framkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég endurtek þakkir fyrir þessa umræðu en ég tel það frekar dapurlega (Forseti hringir.) niðurstöðu frá hendi hæstv. iðnaðarráðherra sem hér hefur komið fram.