132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Framtíð Hönnunarsafns Íslands.

265. mál
[14:02]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi íslenskrar hönnunar og þá staðreynd að íslensk hönnun hefur heldur betur verið að sækja í sig veðrið á síðustu árum. Segja má að íslensk hönnun sé á heimsmælikvarða. Það er þess vegna dálítið sorglegt að Hönnunarsafnið sé enn þá í bráðabirgðahúsnæði og það kom fram í svörum hæstv. menntamálaráðherra að samningur við safnið rann út árið 2003. Nú er árið 2006 og þess vegna finnst mér full ástæða til þess að á þessu sviði sem svo mörgum öðrum að menn bretti upp ermar og láti verkin tala. Það er auðvitað virðingarvert að menn ætli að vanda sig og byggja veglegt safn fyrir íslenska hönnun, ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra. En það er (Forseti hringir.) mikilvægt og ég legg áherslu á að hér ættu menn að drífa í hlutunum.