132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Framtíð Hönnunarsafns Íslands.

265. mál
[14:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir lokaorð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að fyrir unga hönnuði eða sérstaklega þá sem hafa komið svo skemmtilega fram á sjónarsviðið á undanförnum tveimur, þremur, fjórum árum, yrði mikill stuðningur að hafa hér öflugt hönnunarsafn. En ég tel það mikilvægt fyrir málið sem heild, fyrir hönnunina og þróun hennar, að við reynum að nýta þá krafta sem felast í hönnunarsafni annars vegar og í hönnunarvettvangnum hins vegar. Ég held að það hafi ekki skaðað málið að við höfum ekki klárað samninginn frá áramótum 2003–2004. Ég held að við höfum frekar unnið eitt og annað með því að skoða þessi mál gaumgæfilega. Síðan eru auðvitað ákveðin teknísk mál eins og ég fór yfir varðandi húsakostinn, varðandi landið, hvar eigi byggja safnið o.fl. Það er eitt og annað sem á eftir að leysa. Við erum í góðum samræðum við Garðabæ og við munum leysa þetta mál. Metnaðurinn er til staðar en það er að mörgu að huga. Við þurfum líka að huga vel að tengslum Hönnunarsafnsins við Þjóðminjasafnið sem hv. þingmaður kom réttilega inn á. Ég held því að eins og það er gott að sum mál séu unnin hratt, þá vinni tíminn með í öðrum málum.