132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

303. mál
[14:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef beint hér þremur fyrirspurnum til hæstv. menntamálaráðherra varðandi Náttúruminjasafn Íslands, sem er eitt af þremur höfuðsöfnum Íslendinga samkvæmt safnalögum. Í spurningu minni get ég sérstaklega um bráðabirgðaákvæði safnalaga, nr. 106/2001. Samkvæmt því ákvæði á að vera hafin vinna við að koma þessu safni á laggirnar. En í bráðabirgðaákvæðinu segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði 5. mgr. 5. gr. sem kveður á um að Náttúruminjasafn Íslands hafi stöðu höfuðsafns kemur ekki til framkvæmda fyrr en sett hafa verið sérlög um Náttúruminjasafn Íslands í samræmi við lög þessi.“

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað líður undirbúningsvinnu við að setja þessi sérlög? Ég spyr líka hvort í gildi séu áætlanir um hvenær endurnýjað Náttúruminjasafn Íslands gæti tekið til starfa og hvort kostnaður hafi verið áætlaður. Og svo hvernig stjórnvöld hyggist leysa húsnæðisvanda safnsins í bráð og lengd. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að málefni Náttúruminjasafns Íslands eða Náttúrufræðisafns Íslands, eða Náttúrugripasafns Íslands, því safnið hefur gengið undir öllum þessum nöfnum í umræðum á Alþingi, hafa verið tíðir gestir á borðum þingmanna. Ég minnist þingsályktunartillögu um Náttúrufræðisafn frá 107. löggjafarþingi. Við fengum yfirgripsmikla fyrirspurn til umhverfisráðherra um Náttúrugripasafn á 123. löggjafarþingi á árinu 1998–1999. Og ævinlega hefur málinu verið ýtt til hliðar. Oft hefur það gengið mjög langt. Það hefur jafnvel verið komið svo langt oft á tíðum að maður hefur séð hilla undir að nýtt safn ætti að rísa hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið tekin frá lóð fyrir það í Vatnsmýrinni á svokölluðum G-reit við hliðina á Öskju. Háskólinn, Reykjavíkurborg og ríkið hafa verið í formlegu samstarfi um málefni safnsins þannig að oft hefur maður talið að nú væri verið að reka smiðshöggið á þetta verk, þ.e. að stofna almennilegt náttúruminjasafn og reisa yfir það almennilegt húsnæði.

Við vitum að Náttúrugripasafn Íslands sem stofnað var 1889 var gefið til íslenska ríkisins með ákveðnum skuldbindingum af hinu íslenska Náttúrufræðifélagi, en megintilgangur þess félags var einmitt söfnun náttúrugripa og opnun Náttúrugripasafns. Mér finnst stjórnvöld hafa aftur og aftur, árum saman og ég get sagt áratugum saman, komið í bakið á því fólki sem gaf þessa höfðinglegu gjöf og öllu því fólki sem hefur viljað (Forseti hringir.) málefnum safnsins vel og unnið að framgangi þess.