132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

303. mál
[14:10]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt sem kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns að í bráðabirgðaákvæði safnalaga frá árinu 2001 kveður á um að Náttúruminjasafn Íslands hafi stöðu höfuðsafns, en komi þó ekki til framkvæmda fyrr en sett hafi verið sérlög um Náttúruminjasafn Íslands í samræmi við safnalög. Eðli málsins samkvæmt er því starfsemi Náttúruminjasafns Íslands ekki sem skyldi. Í samræmi við ákvæði skipaði þáverandi menntamálaráðherra nefnd í upphafi ársins 2002 sem hafi það verkefni að gera tillögur um lagafrumvarp um Náttúruminjasafn Íslands. Nefndina skipa Gunnar Jóhann Birgisson, hæstaréttarlögmaður, sem var formaður, Karitas H. Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu og Jón Gunnar Ottósson, forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem var tilnefndur af umhverfisráðuneytinu.

Nefndin skilað tillögum sínum til mín hinn 20. janúar sl. og ég hef nú þegar sent frumvarpsdrögin til skoðunar og umsagnar til umhverfisráðherra. Ég vil þannig gefa umhverfisráðherra kost á að koma ábendingum sínum á framfæri þar sem hæstv. umhverfisráðherra fer með málefni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég tel mikilvægt að þótt þetta sé á sviði tveggja ráðuneyta, að þá verði sterk tengsl eftir sem áður við Náttúrufræðistofnunina. Samkvæmt núgildandi lögum þá fer hún einnig með Náttúruminjasafn. Þetta vil ég að hæstv. umhverfisráðherra hafi tækifæri til að skoða áður en ég legg frumvarpið fram á Alþingi sem ég vona og reikna með að verði fljótlega.

Við samningu frumvarpsins tók nefndin mið af safnalögum, þeim lögum sem um önnur höfuðsöfn gilda, þ.e. Listasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, og lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Það sem fyrst og fremst tafði störf nefndarinnar var að vandasamt var að finna lausn á flóknum málum sem komu upp vegna aðskilnaðar Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafnsins. Ég ætla þó að bíða með umfjöllun um efni frumvarpsins þar til það hefur verið lagt fram en ég get þó sagt að ég tel að frumvarpið hafi að geyma nýja hugsun í rekstri safna þar sem horfið verði frá hinu hefðbundna hlutverki þess sem Náttúrugripasafns í að það verði eins konar upplifunarsafn, eða kannski mætti segja vísindasafn. Í því skyni mun ég leggja áherslu á að unnið verði hratt að samræmdri stefnu um Náttúruminjasöfn líkt og gert hefur verið á sviði þjóðminja og verið er að nú að ljúka við gagnvart fornleifavörslu.

Í öðru lagi er spurt hvort í gildi séu áætlanir um endurnýjað Náttúruminjasafn Íslands, hvort það geti tekið til starfa og kostnaður hafi verið áætlaður. Þegar lög um Náttúruminjasafn taka gildi, sem vonandi verður á þessu vorþingi, verður fyrsta skrefið að ráða forstöðumann til starfa fyrir safnið og sjá honum og öðru starfsliði fyrir nauðsynlegri starfsaðstöðu. Komi til að frumvarpið verði samþykkt á yfirstandandi vorþingi þá stefni ég að því að hægt verði að ráða forstöðumann til starfa á haustmánuðum. Kostnaður við starfsemi hins nýja Náttúruminjasafns liggur ekki fyrir á þessari stundu, en við fjárlagagerð fyrir árið 2007 verður gert ráð fyrir starfsemi hins nýja safns, líkt og gildir um aðrar stofnanir, verði frumvarpið að lögum.

Það er rétt að taka fram vegna spurningar hv. þingmanns um hvernig stjórnvöld hyggist leysa húsnæðisvanda safnsins í bráð og lengd, að allt frá stofnun Náttúrusafns árið 1889 hefur saga safnsins og húsakostur þess verið samofinn og hefur það verið til húsa á mörgum stöðum í Reykjavík og í bráðarbirgðahúsnæði allt frá árinu 1967. Inngangskaflinn í frumvarpsdrögunum er mjög skemmtilegur aflestrar, áhugaverður og fróðlegur og þetta kemur allt fram þar. Ýmsar nefndir voru skipaðar á síðari hluta síðastliðinnar aldar sem höfðu það hlutverk að gera tillögur um húsnæði undir Náttúrufræðisafn, bæði af hálfu menntamálaráðuneytis sem fór með málefni safnsins þar til umhverfisráðuneytið var sett á fót, og síðan á vegum þess ráðuneytis.

Ákvörðun um byggingu húsnæðis fyrir nýtt Náttúruminjasafn hefur hins vegar ekki verið tekin né fjármagn ætlað til slíkrar byggingar. Ég tel því mikilvægt á þessum tímamótum að við gefum okkur svigrúm og tækifæri til að ræða hvers konar hús muni þjóna hagsmunum safnsins best til lengri tíma litið. Þá er ég fyrst og fremst með í huga sýningarhúsnæði og þá gríðarlegu þróun sem við upplifum þegar við heimsækjum söfn á erlendri grundu. Það hafa orðið gríðarlegar framfarir í safnamálum og safnakosti og öllum tækninýjungum, sérstaklega varðandi náttúruminjasöfn.

Að þessari umræðu eiga sem flestir að koma, jafnt úr hinum opinbera geira sem úr einkageiranum. Ég tel hins vegar ekki vandkvæðum bundið að finna hentugt skrifstofuhúsnæði fyrir starfsemina þegar hún hefst. Þá er brýnt að sem fyrst verði hugað að geymsluhúsnæði safnsins, líkt og gagnvart öðrum söfnum, og hef ég því ákveðið, frú forseti, að láta kanna sérstaklega geymsluþörf safna á vegum ríkisins til framtíðar litið.