132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

303. mál
[14:18]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Varðandi athugasemd hv. þingmanns um samráð er ég alveg sammála því að það þarf að sjálfsögðu að hafa samráð við vettvanginn sem slíkan. En það er ávallt spurning á hvaða stigi það er gert og þessi frumvörp eru unnin með misjöfnum hætti. Að sjálfsögðu er það til athugunar að ræða við náttúrufræðinga og náttúruvísindafólk á þessu stigi en ég tel líka að vel komi til greina til að tefja ekki um of fyrir málinu, þannig að þingið og sú nefnd sem m.a. hv. þingmaður situr í, hv. menntamálanefnd, hafi það tækifæri til að fara gaumgæfilega yfir þetta mikilvæga mál.

Ég vil einnig undirstrika að höfuðsöfnin hafa ákveðinni rannsóknarskyldu að gegna og þá tengingu við Náttúrufræðistofnun Íslands tel ég einmitt vera mikilvæga. Ég sé það fyrir mér að Náttúrufræðistofnun geti sinnt þessu rannsóknarhlutverki Náttúruminjasafns sem tengir þá þessar mikilvægu opinberu stofnanir vel saman og við það fást þá meiri samlegðaráhrif, ef svo má að orði komast, á þessu sviði.

En í öllu falli er þetta núna á fullri ferð og ég segi eins og hv. þingmaður, ég hlakka til að ræða þessi mál við hv. þingmann sem og aðra á hv. Alþingi.