132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skólafatnaður.

441. mál
[14:22]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að sitt sýnist hverjum varðandi skólabúninga, þetta hefur margoft verið skoðað og er eflaust hægt að finna bæði kosti og galla. Ég fór nýverið í viðtal hjá háskólastúdent sem er að skrifa lokaritgerð um skólabúninga. Hann hafði gert rannsóknir, farið yfir þá kosti sem hafa verið í boði og leiðir sem hafa verið farnar og fengið fræðilega niðurstöðu. Þannig að bara nú nýlega hefur einmitt þetta verið skoðað. Það sem ég legg hins vegar ríka áherslu á er það sem kemur fram í lögum um grunnskóla frá 1995, en það er að allur rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaganna.

Ég mun ekki sem menntamálaráðherra beita mér fyrir samræmdum reglum um notkun skólafatnaðar í grunnskólum. Ákvörðun um hvort setja eigi slíkar samræmdar reglur liggur að mínu mati hjá sveitarfélögum og samtökum þeirra í samræðum við skóla og foreldra. Ef menn hins vegar fara út í það að koma á reglum um skólabúninga þá verður að gera það í góðu samráði við foreldra og það þarf að ræða líka við börnin. Það þýðir ekki að horfa fram hjá þeim. Þau hafa líka sterkar skoðanir á þessu.

Ég hef fengið ýmsar ábendingar, ekki bara frá skólasamfélaginu heldur líka frá æskulýðsfélögunum og ekki síst íþróttafélögunum því þar er líka ákveðin tíska í gangi sem er bæði dýr og ódýr og hvar ætlum við þá að setja mörkin? Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er ekki æskilegt að fatnaður sem slíkur leiði til eineltis og ég efast um að hann geri það í svo ríkum mæli, en ég legg mikla áherslu á að sveitarfélögin hafi forgöngu um þetta, þau eru náttúrlega mjög misjöfn. Sveitarfélögin eru mörg og það er þeirra og fræðsluskrifstofanna að fara yfir þetta með skólasamfélaginu, kennurum, nemendum og foreldrum, þeim sem eiga hlut að máli.

Ég vil geta þess að það eru mörg verkefni sem geta tengst einelti og ég vil sérstaklega vekja athygli á einu mjög merkilegu verkefni sem menntamálaráðuneytið hefur haft forgöngu um í grunnskólum landsins, hinu svokallaða Olweusarverkefni sem hefur náð mjög góðum og mælanlegum árangri varðandi einelti og minnkandi einelti á öllum stigum. Það er mikið fagnaðarefni að sveitarfélögin hafa hvatt skólana til þess að fara í þetta verkefni með okkur. Það er gert í góðu samráði við kennara og skólasamfélagið og hefur leitt til þess að við sjáum fram á minnkandi einelti í skólum. Eineltið er náttúrlega alltaf vont en við erum að vinna bug á því með markvissum árangursríkum aðferðum. Hvort skólabúningar leiði til þess er ég ekki svo sannfærð um en ég ítreka það enn og aftur að ég mun ekki beita mér fyrir samræmdum reglum um skólabúninga í grunnskólum.